Og þá fór VG í vörn

Bjarni Jónsson ritar pistil hér á feykir.is þar sem hann virðist vera að svara grein er ég ritaði í Morgunblaðið 19. Febrúar sl.
Þar sem einhverjir lesa ekki Morgunblaðið þá tel ég mikilvægt að lesendur Feykis sjái það sem Bjarni Jónsson vitnar í.
Kveðja
Gunnar Bragi .

Þjóðin á móti Evrópusambandinu. Umsókn í boði VG.

Þegar rætt er um Vinstri græn og Evrópusambandið þá eru margir sem ekki átta sig á því hvort flokkurinn er í ríkisstjórn eða ekki. Nokkrir þingmenn flokksins og amk. einn ráðherra tala gjarnan þannig að þeir beri ekki ábyrgð á því að aðildarumsókn Íslands er orðin að veruleika. Stundum hvarflar að mér að þessir þingmenn og ráðherra trúi því sjálfir að þeir beri ekki ábyrgð jafnvel þótt þeir séu aðilar að ríkisstjórninni sem leiðir málið og hafa greitt götu þess innan alþingis og ríkisstjórnar. Gleymum því ekki að ríkisstjórnin stóð ÖLL að því að málið færi í gegnum þingið, líka hæstvirtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en hann samþykkt í ríkisstjórn að málið færi fyrir þingið.
Icesave er annar angi aðildarumsóknarinnar en eins og fram hefur komið hjá ráðherrum og þingmönnum þá eru þessi mál óaðskiljanleg. Það var því kostulegt að sjá þingmenn VG greiða atkvæði í leikritinu sem þeir settu á svið í þinginu þegar greidd voru atkvæði um aðildartillögu ríkisstjórnarinnar og Icesave lögin. Hver þingmaður VG fór með hlutverk sitt svo vel að þeim tókst að blekkja  flesta sem fylgdust með. Samþykkt var að fara aðildarviðræðurnar án skilyrða sem mörgum  þótti forsenda þess að til viðræðna yrði farið. Því eru þessar viðræður sem hafnar eru í andstöðu við þær skoðanir og því ekki í umboði þeirra sem vildu halda þessum skilyrðum.
Sífellt kemur betur í ljós að Íslendingar vilja ekki í Evrópusambandið og benda kannanir til þess að andstaðan sé að aukast fremur en hitt. Þannig má benda á að í könnun sem Samtök Iðnaðarins (www.si.is)  létu gera í haust kom fram að rúm 61% þjóðarinnar myndu hafna aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samkvæmt sömu könnum kom fram að 75% stuðningsmanna Framsóknarflokksins sögðust vera andvígir aðild, 70% stuðningsmanna VG, 75% Stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks en 20% Stuðningsmanna Samfylkingar. Nýverið gerði Viðskiptablaðið könnum meðal atvinnurekenda og kemur í ljós að um 60% þeirra er á móti aðild.
Sé eitthvað að marka yfirlýsingar Vinstri grænna þá ættu þingmenn þess flokks að hjálpa til við að stöðva þetta ferli fjárausturs sem aðildarumsóknin er. Líklegast er þó að þingflokkurinn setji á svið enn eitt leikritið þar sem „hæfilegum“ fjölda þingmann verði leyft að hafa aðra skoðun á málinu en formaðurinn og Evrópusinnarnir í VG. Auðvitað sjá flestir að Vinstri græn hafa umpólast í flestum þeim málum er sá flokkur lofaði fyrir síðustu kosningar. Evrópusambandsumsóknin er komin á fullt í boði þeirra. „Glæsilegir“ icesave samningar sem kynntir voru í sumar, unnið gegn byggðum landsins með fyrningaleið os.frv. Fullyrða má að einungis Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fylgi harðlínustefnunni til hlítar.
Framundan eru mikilvægir tímar þar sem stöðva verður aðildarumsóknina, gera vitræna samninga um icesave eða hafna þeim, byggja upp atvinnulífið og taka á málefnum heimilanna. Er líklegt að hin hringsólandi Vinstri græn taki þátt í því?

Gunnar Bragi Sveinsson
alþingismaður.
(Greinin var birt í Morgunblaðinu 19. Febrúar)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir