„Oj nei, mig langar sko ekki í Blönduskóla!“ :: Áskorandapenni Lara Margrét Jónsdóttir Hofi í Vatnsdal

Þetta var aðal frasinn á Húnavöllum í mörg ár og þótti okkur óbærilegt að hugsa að við þyrftum kannski að deila skólagöngu með Blönduósingum. Hversu ömurlegt að við fengjum fleiri möguleika til að taka þátt í íþróttum, félagsstarfinu og lúðrasveitinni, sem var ennþá á lífi þá, vá hvað allir myndu vorkenna okkur fyrir að eiga svo erfitt líf.

Nú í vor skal stofna nýtt sameinað sveitarfélag Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps sem mun leiða af sér að skólar verða sameinaðir í sveitarfélögunum. Líklegt mætti telja að börn úr Húnavatnshreppi eigi þá eftir að verja meiri tíma á Blönduósi og því vil ég hvetja foreldra í sveitinni til að nýta tækifærið og leyfa þeim að taka þátt í því íþrótta- og tómstundarstarfi sem er í boði þar.

Á síðustu árum hefur nemendum farið fækkandi í Húnavallaskóla og með því fækkaði tækifærum nemanda til að mynda sér fjölbreytt félagslíf og til að læra að vera partur af stærra samfélagi. Börn á Húnavöllum hafa misst af því að mæta á íþróttaæfingar eða í félagsmiðstöðvar og taka þátt í þeim viðburðum sem eru í boði þar. Þegar ég var ennþá í grunnskóla (sem er nú ekki SVO langt síðan) var reynt að bjóða okkur frá Húnavöllum að mæta í Skjólið en lítið varð úr því. Skjólið bauð nemendum Húnavallaskóla að mæta eitt kvöld og þorðum við varla að tala við Blönduósingana, enda voru þeir taldir síðri og vorum við ekki vön því að tala við fólk utan 50 manna skólans okkar. Eins áttu Húnavellir að bjóða Blönduósingum að mæta eitt kvöld til sín en aldrei varð neitt úr því og við mættum aldrei aftur í Skjólið svo þetta samstarf var fljótt að deyja og heimsótti ég og mínir bekkjarfélagar Skjólið aldrei aftur.

Ég byrjaði af æfa fótbolta á Blönduósi í 7. bekk með vinkonum mínum og reyndu fljótt fleiri krakkar frá Húnavöllum að gera hið sama. Erfitt var þó fyrir krakka að komast frá Húnavöllum niður á Blönduós því aðeins eitt auka pláss var laust í skólabílnum en stundum voru kennararnir svo góðir að gefa einhverjum eitt sæti í þeirra bíl þannig það gilti bara ein regla: fyrstur kemur fyrstur fær. Eins skal benda á það að börnin sem voru ekki á unglingastigi áttu oft erfitt með að mæta á æfingar þar sem þær voru á sama tíma og þau voru ennþá í skóla og því voru ennþá færri á þeim aldri sem tóku þátt í íþróttalífi Blönduósbæjar.

Kæru sveitungar, nú þegar börnin ykkar fá loksins smá tækifæri til að taka þátt í einhverju utan skóla ágætlega auðveldlega bið ég ykkur eindregið um að leyfa þeim að taka þátt jafnvel þó svo að það sé bara eitt eða tvö skipti í viku. Einhver sem mætir á sundæfingu eða í félagsmiðstöð jafnvel bara einu sinni í viku eflir félaglíf sitt mun meira heldur en sá sem fer alltaf beint heim og tekur aldrei þátt í neinu. Meiri samvera barnanna utan nýja grunnskólans mun líka hjálpa þeim að kynnast hvort öðru betur að aðlagast hinu nýja lífi og mun þá vonandi þessi gamli hugsunarháttur sem ég og mínir jafnaldrar höfðum um Blönduósinga deyja út.

Senn líður að sveitarstjórnarkosningum og mun þar listi Sjálfstæðismanna og óháðra bjóða fram sterkan lista sem hugar að því að bæta lífsgæði allra, ungra sem aldna, bæði í dreif- og þéttbýli. Ég býð mig fram sem hluti af þessum lista í 13. sæti og bíð spennt eftir því sem koma skal í nýju sveitarfélagi.

Ég skora á Þuríði Hermannsdóttur á Akri að taka við pennanum.

Áður birst í 16. tbl. Feykis 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir