Ókostur að skipta börnum úr dreifbýlinu í báða skólana - Erla Jónsdóttir Skagabyggð

Erla Jónsdóttir býr í Kambakoti í Skagabyggð, framkvæmdastjóri Lausnamiða, sem er bókhalds- og rekstrarráðgjafa fyrirtæki með skrifstofu á Skagaströnd. Einnig stundar hún kolefnisjafnaða sauðfjárframleiðslu á jörðunum Kambakoti og Hafursstöðum ásamt Jóhanni Ásgeirssyni, eiginmanni sínum og börnum þeirra, Freyju Dís og Loga Hrannari. Erla er ekki hlynnt sameiningu og telur hana snúast meira um skiptingu starfa á milli Skagastrandar og Blönduóss frekar en nokkuð fyrir íbúa Skagabyggðar.

Hvernig líst þér á að sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu verði sameinuð?
-Mér leist í raun mjög vel á það og var talsmaður þess en það eru eiginlega farnar að renna á mig tvær grímur. Mér finnst umræðan ekki vera nægilega jákvæð um að þetta verði eitt sameinað sveitarfélag. Heldur er tilfinningin að stærsta sveitarfélagið ætli að gleypa okkur hin. Það er svona því miður tilfinningin.

Hvað telur þú jákvætt við þær?
-Út frá mínum persónulegu hagsmunum á ég bara svolítið erfitt með að finna það nema vera nokkuð örugg um að lenda ekki í sveitarstjórn, en vonandi myndi stjórnunarlegur kostnaður lækka og stjórnsýslan verða vandaðri.

Hvað neikvætt?
-Eina sem ég sé fyrir víst að breytist pottþétt fyrir mig er að fasteignagjöld verða hækkuð. Sauðfjárbúskapur má nú kannski ekki við því.

Hvernig telur þú að sameining eigi eftir að breyta þinni afkomu ef nokkuð?
-Ég sé ekki í fljótu bragði að það verði nein breyting nema hækkuð fasteignagjöld og þau telja talsvert fyrir mig, eigandi alltof margra fermetra af húsum.

Hefur þú fylgst með umræðum og skrifum á heimasíðu sameiningarnefndar Húnvetningur.is?
-Ég hef lesið kynningarefnið sem þar er að mestu en missti af fundum á netinu því miður.

Er eitthvað sem þér finnst tortryggilegt sem sett er fram um hugsanlega sameiningu?
-Nei ekki beint held ég en þarna eru ansi margir þekktir gamlir frasar um að standa saman að hinu og þessu sem þessar sveitarstjórnir hafa alltaf verið að reyna að gera en kannski ekki uppskorið. Ég sé ekki hvað þessi sameining ætti að breyta þar sérstaklega. Þetta er meira skipting starfa á milli Skagastrandar og Blönduóss en aldrei minnst á neitt fyrir íbúa Skagabyggðar. Ég sakna þess að sjá ekki meira hvað sé á dagskrá hjá sveitarfélögunum. Nú er þekkt að það þarf að ráðast í lausnir á skolpmálum á Skagaströnd og við í Skagabyggð búum við óupplýstar og ómalbikaðar heimreiðar. Ég óttast svolítið að þetta verði slagur á milli Blönduóss og Skagastrandar um framkvæmdir og við hin bara verðum skilin eftir.

Eignastaða er líka gríðarlega ólík en það gleymist kannski að meta til fjár það landnæði sem íbúar í Skagabyggð og Húnavatnshreppi búa við, miðað við ný drög að landbúnaðarstefnu og alla umræðu um kolefnismál að þá gætu það verið gríðarleg verðmæti, landnæði á bara efir að hækka í verði, það er mitt mat.

Er eitthvað þar sem þú ert virkilega sammála?
-Sameining grunnskólanna, hefði bara viljað sjá það ganga lengra. Það er ókostur að skipta börnum úr dreifbýlinu í báða skólana. Held að ef þau væru saman í einum skóla væri það kostur og meira tillit yrði þá tekið til þeirra þarfa, bæði varðandi skipulags á tómstundum og eins varðandi það að þau geti ekki hlaupið á milli skóla og heimilis. Ég held að það væri hagur barnanna okkar ef þau væru öll saman í skóla en ég á kannski ekki að úttala mig um það þar sem stutt er eftir í þeim málum hjá mér. En ég hefði viljað hafa börnin mín í fjölmennari bekk svo það sé bara sagt.

Hvað gætir þú hugsað þér að sameinað sveitarfélag myndi heita?
-Ég er aðflutt þannig ég ber ekki eins miklar tilfinningar og innfæddir Húnvetningar, en Húnaþing eystra er það ekki bara málið?

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Já, mér finnst fréttaflutningur af lokun bankans á Blönduósi mjög dapur, ekki bara það að bankinn loki heldur líka það hvernig íbúar tjá sig. Hefði viljað sjá væntanlega samsveitunga mína sameinast um að flytja viðskipti sín opinberlega í útibú Landsbankans á Skagaströnd en það hefur lítið farið fyrir því. Það eitt held ég að hefði virkað vel í þessar sameiningarumræður. Mig setur pínu ugg yfir þessu þar sem það er ansi mikil þjónusta sem íbúar norðan Blönduóss sækja möglunarlaust til Blönduóss.

 

 

Í tilefni íbúakosninganna í Austur-Húnavatnssýslu, þar sem fjögur sveitarfélög bíða örlaga sinna um sameiningu eður ei, sendi Feykir, af handahófi, fjórum einstaklingum úr sitthverju sveitarfélagi héraðsins, spurningar til að kanna hug þeirra til verkefnisins og birtist í 20. tbl. Feykis 2021, sjá HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir