Opið bréf til frambjóðenda í kosningum til Alþingis 25. september 2021

Nú líður að þingkosningum og kjördagur nálgast. Við kjósendur þurfum að skoða og meta hverja skal kjósa úr þeim fjölda framboða sem í boði eru. Stefnumálin virðast svipuð hjá mörgum flokkanna, þótt ekki sé samhljómur um alla hluti. Ég tilheyri þeim ört stækkandi hópi eldra fólks sem eru ýmist kallaðir eldri borgarar, lífeyrisþegar eða jafnvel bótaþegar. Mér hugnast ekki þessi miðamerking, við erum eldra fólk. Við viljum hafa áhrif á eigið líf og framtíð og teljum okkur hafa margt fram að færa.

Á landsfundi LEB í maí síðastliðnum voru samþykkt eftirfarandi fimm áhersluatriði eldra fólks vegna Alþingiskosninga 2021:

 1. Eldra fólk fái að vinna eins og það vill
  Frítekjumörk vegna lífeyris frá lífeyrissjóðum verði 100.000 kr. Eftirlaunafólk fái að vinna eins og því sýnist án skerðinga í almannatryggingakerfinu og njóti afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir. Lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en umsamin lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði. Ellilífeyrir og frítekjumörk hækki árlega samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.

 2. Starfslok miðist við færni en ekki aldur
  Það er réttlætismál að eldra fólk fái að miða starfslok sín við áhuga, færni og getu en þurfi ekki að hætta virkri þátttöku í atvinnulífinu eingöngu vegna aldurs. Aldursmismunun er bönnuð samkvæmt stjórnarskrá. Skorað er á alþingismenn að fella úr allri lagasetningu ákvæði um aldurstengdar viðmiðanir, en leggja þess í stað áherslu á þekkingu, reynslu, hæfni og menntun fólks óháð aldri.
 1. Heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar
  Til að eftirlaunafólk geti lifað heima hjá sér með reisn, er lagt til að ríki og sveitarfélög stórauki samvinnu sína með það að markmiði að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar. Öll fjárframlög taki mið af þessu. Heilsugæslan nálgist eldra fólk fyrr á lífsleiðinni með samhæfðri teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga og félagsþjónustu sveitarfélaga og haldi því sambandi. Velferðartækni ætti að vera mikilvægur þáttur í öryggi í heimahúsum eldra fólks. Þáttur aðstandenda verði metinn með umönnunarálagi. Stofnun öldrunargeðdeildar er forgangsmál
 1. Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis
  Ljóst er að búseta á eigin heimili hentar ekki öllum, þó þeir þurfi ekki dvöl á hjúkrunarheimili. Búsetuúrræði fyrir eldra fólk eru hins vegar alltof fábreytt. Það vantar millistig, milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Brýnt er að finna fjölbreytt úrræði til að mæta þessari þörf. Fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra verði einungis varið til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum. Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis
 1. Ein lög í stað margra lagabálka
  Um málefni sem varða eldra fólk sérstaklega gilda of margir og of sundurleitir lagabálkar þar á meðal almannatryggingalögin. Einfalda þarf lagaumhverfið og gera það skilvirkara meðal annars með því að skilja að lög um eldra fólk og öryrkja. Tryggja þarf aðkomu eldri borgara að þeirri endurskoðun.

Þessir áherslupunktar voru samþykkir á landsfundi LEB síðastliðið vor. Verið er að kynna þessa áherslupunkta m.a. fyrir frambjóðendum flokkanna og við viljum heyra frá þeim hvort þeir vilji vinna með okkur. Það eru um 48.000 manns á eftirlaunaaldri á Íslandi - og fer fjölgandi. Þetta er sá þjóðfélagshópur sem skilar sér hvað best á kjörstað við hverjar kosningar.

Við viljum hafa áhrif og hafa aðkomu að borðinu þar sem fjallað er um okkar kjör og framtíð.
Ágætu frambjóðendur í Alþingiskosningum 2021.
Viljið þið vinna með okkur?

Ásgerður Pálsdóttir
formaður Félags eldri borgara í Húnaþingi

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir