Sæluvika - Hilmir Jóhannesson skrifar

Leikarar og starfsfólk í Sláturhúsið Hraðar hendur. Standandi frá vinstri: Helgi Gunnarsson, Íris Dóróthea Randversdóttir, Frosti Frostason, Halldóra Helgadóttir, Jóhann Ólafsson (Ninni póst), Halla Steinunn Tómasdóttir, Páll Ragnarsson, Svavar Jósefsson, Ásta Egilsdóttir, Þórólfur Stefánsson og Gunnlaugur Ólsen.
Hljóðfæraleikarar: Lárus Sighvatsson, Sigurgeir Angantýsson (Muni) og Eiríkur Hilmisson.
Krjúpandi eru þeir Stefán Árnason, Hilmir Jóhannesson og Sigurfinnur Sigurjónsson. Myndir: HSK – STEP.
Leikarar og starfsfólk í Sláturhúsið Hraðar hendur. Standandi frá vinstri: Helgi Gunnarsson, Íris Dóróthea Randversdóttir, Frosti Frostason, Halldóra Helgadóttir, Jóhann Ólafsson (Ninni póst), Halla Steinunn Tómasdóttir, Páll Ragnarsson, Svavar Jósefsson, Ásta Egilsdóttir, Þórólfur Stefánsson og Gunnlaugur Ólsen. Hljóðfæraleikarar: Lárus Sighvatsson, Sigurgeir Angantýsson (Muni) og Eiríkur Hilmisson. Krjúpandi eru þeir Stefán Árnason, Hilmir Jóhannesson og Sigurfinnur Sigurjónsson. Myndir: HSK – STEP.

Sæluvika - íslenskan sameinar þarna líðan og tíma en þó er það aðeins hluti af staðreyndinni, allir vita að orðið segir meira. Þegar sýndar voru tvær til þrjár kvikmyndir, tvö leikrit og Vínarkrus á eftir, eins og 7 + 1, Guðmundur Andrésson dýralæknir, sagði, en það þýddi ball, þá var nóg að gera í Bifröst og óskaplega gaman.

Ég lék í mörgum leikritum og með ýmsum, m.a. tveimur geitum og einum hesti, hann fór ekki á sviðið, var teymdur hring í salnum. Á frumsýningunni skeit hann á gólfið, sem var stórvel heppnað og eðlilegt. Aldrei vildi hann endurtaka þetta, var þó síður en svo pempíulegur. Hitt er þekkt að frumsýningarkvíði og spenningur getur valdið óróa í meltingarveginum. 

Þremur stórstjörnum man ég eftir sem léku af slíkum þrótti og innlifun að þeir mundu aldrei hvað þeir áttu að segja. Þetta skapaði verkfræðileg vandamál við uppsetninguna, sætu þeir við borð, lásu þeir af bók, væru þeir á ferð um senuna þurfti að vera með hvíslara í öllum hornum eða textablöð. Ennþá dáist ég að hvað þeir mundu vel hvar á sviðinu setningarnar biðu og léku stórvel, þó þeir hefðu enga hugmynd um hvað kæmi næst. Heilastarfsemi leikara er stundum gloppótt.

Fyrir kom að öl var á könnunni. Einn leikarinn í Sláturhúsinu framleiddi ágætis rauðvín og mætti með þrjár til fjórar flöskur á sýningarnar. Sláturhússtjórinn var prúðmenni, aldrei tók hann stærstu rauðvínssopana. Á einni sýningu laug ég því í hléinu að áhorfandi hefði talað um skrítna lykt þegar þessi leikari væri á sviðinu. Eftir hlé, sneri Sláturhússtjórinn alltaf baki í áhorfendur, hefði hann eitthvað að segja.

Gísli Halldórsson leikstýrði Íslandsklukkunni hjá leikfélaginu, ég ætlaði að vera með en á samlestri var kaupstaðarlykt af mér. Næsta dag kom Kári Jónsson og sagði að Gísla þætti það slæmt og bað mig að skila rullunni. Þarna sannaðist að ég var svo mikil fyllibytta að ég fékk ekki að leika versta drykkjusvola íslenskra leikbókmennta, Magnús í Bræðratungu. Meiri frama náði ég ekki á leikaraferlinum. Sæluvikan breytist, ég líka. Svona var það meðan við vorum orginal.

Sæluvika
Dagarnir koma prúðbúnir,
eins og börn í afmælisveislu,
bíó - leikrit - konsert - sýning - ball -
mikið er gaman að hlakka til.
Tindastóll minninganna
siglir freyðandi gleðisjó
inn í gleymskuna.

Morguninn glær, járnbragð í munni,
viljalitlir vinnugöngufætur,
hjartað fer varla fetið.
Vonin fer að spíra um hádegið,
undrafljótt vex gleðin í rifjahylkinu.

Vökvun er vexti nauðsyn,
mikið er rökkrið yndislegt
og framtíðin björt.
Föstudags seinnipartur,
ólýsanleg samkennd dauðadæmdra
sem náðaðir eru á höggstokknum,
breytir gráskitnu pósthústorginu
í lýðveldisfagnað, í eðlilegum litum og stereó,

SIGLUFJARÐARRÚTAN,
birtist í kófinu, með gleðidropapóstinn.
Dagarnir koma prúðbúnir,
eins og börn í afmælisveislu.

Misjafnlega snyrtilegir
fjúka þeir af dagatalinu.
Græni salur - gleðin er knúin,
á laugardagskvöldi, til hins ítrasta.
Leggjum allt undir á lokasprettinum.

Augu blika - ekki kvika -
ást og gleði – mjúk og hlý,
aldrei hika - allt of seint er það.
SÆLUVIKA
sífellt ný - sól í hádegisstað.

/Hilmir Jóhannesson

Áður birst í 16. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir