Saga hrossaræktar – hrossafjöldi og afsetning :: Kristinn Hugason skrifar

Vetrarútreiðar í upplöndum höfuðborgarsvæðisins. Mynd úr safni SÍH, ljm. Sigurður Sigmundsson.
Vetrarútreiðar í upplöndum höfuðborgarsvæðisins. Mynd úr safni SÍH, ljm. Sigurður Sigmundsson.

Áður en lengra er haldið í skrifum þessum er ekki úr vegi að rekja hér nokkuð hrossafjöldann í landinu í gegnum tímann og átta sig ögn á nytjum og afsetningu hrossa. Hver hvatinn er til hrossaeignar á hinum ýmsu tímum og hagur manna af hrossunum.

Hrossafjöldi í gegnum aldirnar

Enginn búpeningur er eins oft nefndur á nafn í fornritunum og hrossin. Þau höfðu sérstöðu eins og við vitum og oft hefur verið á minnst í skrifum þessum; hestarnir voru frá upphafi haldnir til annarra hluta en hinar búfjártegundirnar, ekki fyrst og fremst til að afla fæðu, klæða og skæða. Þó vissulega væru þeir tíðum blótdýr í heiðni og þá hefur hrossaslátur verið mikilvæg fæða, var það þó ekki forsenda hrossahaldsins. Heldur það hlutverk allt sem grein hefur verið gerð fyrir í greinaflokki þessum.

Engar tölur um hrossafjölda í landinu öllu eru til fyrr en í byrjun 18. aldar. Líkur má þó að því leiða að þeim hafi fjölgað mjög hratt í landinu, þeim var enda létt að framfleyta a.m.k. í sumum héruðum og fljótlega urðu sum héruð mun hrossfleiri en önnur eins og vel er þekkt enn í dag. Öllum ætti að vera augljósar skýringar á þessu, s.s. landgæði, veðurfar o.fl. Á þessum tímum lifði fólk í mikið nánara samneyti við náttúruna en í dag, öll sú tækni sem við nú þekkjum og gerir okkur fært að firra okkur meira en þá var hægt ýmsum vandræðum var þá einfaldlega ekki til. Í sumum héruðum var því hrossfátt og alls ekki grundvöllur til að halda stóð en í öðrum mikill fjöldi og stór stóð. Bændur þar sem erfitt var að framfleyta hrossum vegna landþrengsla, snjóþyngsla e.þ.h. urðu að halda sig við þá hrossaeign sem búsþarfir kröfðust en allmikil hrossaeign var öllum bændum nauðsynleg til aðdrátta en goðum og fyrirmönnum sérstaklega til þingreiða að ekki sé talað um þær miklu herfarir sem tíðkuðust þegar komið var fram á hina umbrotamiklu Sturlungaöld og sumar voru farnar jafnvel þvert yfir landið. Þessi mikla beina þörf fyrir hestinn viðhélst svo allar götur fram á miðja síðustu öld þegar bílar og dráttarvélar tóku við hlutverki hans.

Í búfjártali með Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem tekið var saman 1703 eru hross sögð 26.909 í landinu. Næstu tölur eru frá 1770 en þá voru hrossin 32.289 og eftir það voru búfjártalningar gerðar nokkuð þétt. Fjöldi hrossa var áþekkur fjölda nautgripa á 18. öldinni en á þeirri 19. urðu hrossin verulega fleiri. (Landbúnaðarsaga Íslands, 3. bindi, bls. 235, Jónas Jónsson, Skrudda, 2013)

Hross voru þetta um 40 þúsund megnið af 19. öldinni og fór heldur fjölgandi er á leið og upp úr aldamótum, þau fóru svo fyrst yfir 50 þúsund 1917 (51.327), árið 1942 fóru þau fyrst yfir 60 þúsund (61.071) og hafði t.d. fjölgað mikið frá árinu áður þegar þau voru 57.968. Eftir vélvæðingu sveitanna eftir seinna stríð tók hrossum mjög að fækka og spáðu þá ýmsir að hlutverki hestsins væri lokið, urðu hrossin fæst árið 1963 (29.536). Með með þeirri glæsilegu endurreisn hestamennskunnar sem varð fjölgaði hrossum að nýju. Eftir opinberum tölum urðu hrossin í landinu flest árið 1996 en þá eru skráð 80.518 hross og er það eina árið sem fjöldi hrossa er talin hafa farið yfir 80 þúsund. (Heimild: Hagstofa Íslands). Þeim fækkaði svo aftur og eru nú um 65 þúsund en líklega er frekar fjölgun í spilunum núna en aukinnar bjartsýni gætir í hrossabúskapnum.

Nytjar

Í gegnum aldirnar hefur alla tíð verið sá andi uppi að hrossin í landinu væru of mörg. Mjög var treyst á vetrarbeit, jafnvel algerlega og komu alltaf af og til slæm felliár. Mögnuðust þessar raddir eflaust í hvert sinn er það gerðist. Einnig ber á því að menn óttuðust mjög skaðleg áhrif hrossabeitar á land, enda var lenska víða að hrossaeigendur lægju heima með stóð sitt í stað þess að reka það á afrétt. Þannig má finna í Árbókum Espólíns frásögn frá 1652 um að þáverandi sýslumaður Skagfirðinga, Benedikt Halldórsson, lét út ganga dóm um skyldu hrossaeigenda að reka á afrétt yfir sumarið. Árið 1739 beitti Skúli Magnússon, síðar landfógeti en þá sýslumaður í Skagafirði, sér fyrir því að gerð var samþykkt til að skipa fyrir um hestahald í sýslunni og takmarka það. Hefur þetta allt verið löng barátta og á ýmsu gengið en málin jafnt og þétt færst til betri vegar.

Eins og áður hefur komið fram var hesturinn ómissandi nytjaskepna heima á búunum og til ferðalaga og flutninga, á öllum öldum hafa svo verið uppi menn sem hafa notið hestsins, hestamenn, þó sporthestahald hafi ekki verið á færi nema örfárra. Neysla hrossakjöts dróst mjög saman með kristnitökunni, eflaust vegna þess sess sem hesturinn hafði á blótunum sem voru aflögð þó fyrst í stað væri blótað á laun, eins og þekkt er. Þannig að eflaust hafa hrossin verið of mörg oft á tíðum miðað við nytjar sem af þeim voru. Hitt er þó að farið var að ýta undir að hrossakjöt væri nýtt og árið 1776 kom út bæklingur eftir Magnús Ketilsson sýslumann undir heitinu: „Stutt ágrip um ítölu búfjár í haga, með litlum viðbæti um hrossaslátur.“ Þar setur hann fram spakmælið kunna: „Hestabit er hagabót“ og bendir á hvernig hrossabeitin bæti landið með að eyða sinu; „þau rækti landið með að eyða sinunni“. Jafnframt hvetur hann til neyslu hrossakjöts. (Landbúnaðarsaga Íslands, 3. bindi, bls. 236, Jónas Jónsson, Skrudda, 2013). Frá þessum tíma hefur neysla hrossakjöts aukist og í dag er neyslan töluverð og folaldakjöt fengið síaukna viðurkenningu sem úrvals matur, hollur og ljúffengur. Á síðustu öld hleyptu bændur víða upp kjötstóðum þegar sauðfjárpestirnar grasseruðu. Töluvert hefur verið flutt út af hrossakjöti, t.d. til Japan og fleiri land. Ekki er þó ætlunin að ræða öllu frekar um kjötframleiðslu hér.

Í erindi, sem við Þorkell Bjarnason þáverandi landsráðunautar í hrossarækt fluttum á Ráðunautafundi BÍ og RALA árið 1990 undir heitinu: „Staða hrossaræktar, möguleikar til aukinnar arðsemi“ og var flutt á málstofu um hagræðingu í landbúnaði, sögðum við hvað inntak hrossaræktarinnar sem búgreinar varðar í heild: „Reiðhrossarækt er höfuðmarkmiðið en kjötframleiðsla kemur til þó að ekkert sé sérstaklega lagt fram til hennar sem ræktunarsjónarmiðs. Kjötið var áður allverðmæt afurð en á nú við vaxandi samkeppni að etja og líta má á það sem aukaafurð. Aðrar afurðir sem nýta má eru blóð úr fylfullum hryssum til lyfjagerðar, húðir og jafnvel hrosshár og kaplamjólk.“ (Um kynbætur hrossa, bls. 14, Búnaðarfélag Íslands. Fræðslurit nr. 9, ritstjóri og aðalhöfundur Kristinn Hugason, Reykjavík 1992).

Niðurlagsorð

Í næstu grein verður fjallað um reiðhrossasöluna fyrr og nú, ekki hvað minnst útflutninginn sem á sér mikið lengri og fjölskrúðugri sögu en margur hyggur. Þetta er síðasta grein mín á árinu og óska ég lesendum öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.

Kristinn Hugason
forstöðumaður
Söguseturs íslenska hestsins.

Áður birt í 46. tbl.  Feyki 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir