Saga úr sundi

Eftir þrásetu á þingi ákvað ég einn morguninn að fara í sund í Reykjavík. Ekki voru aðrir í búningsklefanum en ég og nokkrir strákar sem voru í skólasundi, auk baðvarðarins sem hafði aðgát með öllu sem fram fór.

Í sturtunni var nokkur fyrirgangur er drengirnir voru að undirbúa sig fyrir sundið. Einn var kominn lengra en hinir í líkamlegum þroska, var kominn með hárbrúsk ofan við typpið. Þar með var hann fremstur í valdaröðinni og ljóst var að hinir drengirnir áttu töluvert undir honum komið hvar þeir skipuðust í hópnum. Enda lét foringinn nokkuð til sín taka.

Allt í einu fannst mér eins og ég væri horfinn fimmtíu ár aftur í tímann og væri staddur í bárujárnsklefanum við gömlu Laugardalslaugina. Við strákarnir að fara í sund á köldum vetrarmorgni og varla sást handa skil fyrir gufunni.

Góðir vinir og gott samfélag, sérstaklega þegar hann mætti ekki þessi sem var sífellt að ógna og láta aðra kenna á valdi sínu. Valdi sem hann hafði tekið sér en seinna sýndi sig að enginn innstæða væri fyrir. Og eftir á að hyggja var hann að öllum líkindum sá veikasti í hópnum.

Ég vaknaði úr þessum hugleiðingum þegar baðvörðurinn stakk höfðinu inn í klefann og hvatti eina drenginn sem eftir var í sturtu að drífa sig út í laugina.

Var þetta sami baðvörðurinn og í Laugardalnum forðum? Nei, varla sá hlýtur að vera kominn á hinar sólríku baðstrendur eilífðarinnar.

Drengurinn í sturtunni var fíngerður og hnipraði sig saman undir úðanum. „Ertu hræddur við vatnið?“ spyr ég. Hann lítur á mig með fallegum brúnum augum og neitaði því, en hvorki fylgdi sannfæring í röddinni né augunum. Þegar vörðurinn kom aftur og var orðinn hastari í rómnum klæddi drengurinn sig ofurhægt í skýluna og hélt út í kalt morgunmyrkrið. Áður en hann hvarf úr dyragættinni leit hann til mín og mér fannst hann senda mér skilaboð með augunum: “Takk fyrir að taka eftir því að mér líður ekki nógu vel.”

Skrifað á degi íslenskrar tungu 2017

Gísli Gunnarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir