Sameinuð erum við sterkari heild.

Dagný Rósa Úlfarsdóttir. MYND AÐSEND
Dagný Rósa Úlfarsdóttir. MYND AÐSEND

Sveitarstjórnir Skagabyggðar og Húnabyggðar hafa ákveðið að boða til íbúakosninga núna í júní um sameiningu sveitarfélaganna. Að baki þeirri ákvörðun liggur niðurstaða samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna. Sú niðurstaða er að það sé framfaraskref að sameina sveitarfélögin í eitt sveitarfélag og með því verði það öflugt, með sterkari rekstrargrundvöll til að bæta þjónustu við íbúa og hafi aukinn slagkraft. Ég get tekið heilshugar undir þá niðurstöðu. En hvers vegna?

Við búum við það í Skagabyggð að kosið hefur verið í sveitarstjórn með persónukjöri og það vald er hjá íbúum að velja sér fólk í sveitarstjórn sem jafnvel hefur ekki áhuga á því eða tíma til að sinna verkefninu. Við sem höfum starfað í sveitarstjórn, eða þau sem starfa þar núna, höfum hingað til reynt að gera okkar besta en ríkari kröfur gera vinnuna oft erfiða og flóknari. Íbúar gera ríkari kröfur um þjónustu og upplýsingaflæði, ásamt skilvirkari stjórnsýslu. Sömu kröfur eru á sveitarfélög af hálfu opinberra aðila, hvort sem það er fámennt sveitarfélag eins og Skagabyggð eða fjölmenn sveitarfélög eins og Akureyri eða Reykjavík. Ég þekki það sjálf, hafandi starfað sem oddviti Skagabyggðar 2018-2022 að stjórnun og þjónusta lítils sveitarfélags er ekki hrist framúr erminni eða eingöngu sinnt á kvöldin í hlutastarfi.

Skagabyggð er eitt af fámennari sveitarfélögum landsins og þarf að kaupa nær alla þjónustu af stærri sveitarfélögum í kringum sig eða er í byggðasamlögum um ýmsa íbúaþjónustu. Stefna stjórnvalda er að stækka (og þar með fækka) sveitarfélögum á landinu og við því þarf að bregðast.

Við þurfum aukinn slagkraft og samstöðu á okkar svæði því í alltof langan tíma höfum við ekki getað komið okkur saman um að sameinast þótt samvinnan hafi verið góð. Við reyndum stóra sameiningu 2021 sem gekk ekki þá en það þýðir ekkert að horfa í baksýnisspegilinn og hugsa um það. Horfum frekar framávið og hugsum um framtíðina. Við þurfum styrka og trygga þjónustu við íbúa á dreifðum svæðum sem og í þéttbýli og ég tel að sameinað sveitarfélag sé vel í stakk búið til að gera það. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að við íbúar í Skagabyggð munum gleymast í stjórnsýslu Húnabyggðar né heldur að þjónusta við okkur verði eitthvað öðruvísi en við aðra íbúa sveitarfélagsins. Heimastjórn í Skagabyggð á að gæta hagsmuna íbúa.

Ég hvet íbúa í Skagabyggð og Húnabyggð að kynna sér sameiningartillöguna inni á heimasíðum sveitarfélaganna og mæta á kjörstað. Tölum svæðið okkar og fólkið sem stendur í brúnni upp en ekki niður, það skilar betri árangri.

 

Dagný Rósa Úlfarsdóttir, grunnskólakennari, íbúi í Skagabyggð og fyrrverndi oddviti Skagabyggðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir