Samfylkingin er á móti togveiðum
feykir.is
Aðsendar greinar
02.04.2009
kl. 08.58
Talsmaður Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum, Þórður Már Jónsson, birti nýlega hreinskiptna grein undir fyrirsögninni Sóun á sameign þjóðarinnar en skrifin bera með sér að Samfylkingin sé í harðri andstöðu við togveiðar. Sagt er berum orðum að togveiðar séu þjóðhagslega óhagkvæmar, nýti fiskinn illa og valdi hrikalegum spjöllum á lífríki hafsins auk mikillar mengunar! Ekki er hægt að segja annað en að skrifin séu beinskeytt skilaboð til sjómanna um hvað verða vill ef Samfylkingin kemst í ríkisstjórn að afloknum kosningum. Einn af hinum vondu fylgifiskum kvótakerfisins er að tefla mismunandi útgerðarflokkum hverjum gegn öðrum þar sem kerfið virkar á þann hátt að einn fiskur er frá öðrum tekinn. Þorskur sem veiddur er við Grímsey dregst frá því sem má veiða á Breiðafirði og við Vestmanneyjar. Hið sama á við um þorskana sem Kristján Andri dregur á Ísafirði og Ragnar Sighvatz í Skagafirði, þeir tittir dragast frá því sem togarar mega veiða á hefðbundnum togaramiðum tugi sjómílna frá landi. Þetta er líffræðileg víðáttudella en virkar ágælega í stílabókinni sem notuð er til að búa til regluverkið utan um núverandi kvótakerfi. Það er greinilegt að kerfið hefur mengað hugsanagang vel meinandi fólks, s.s. téðs Þórðar Más Jónssonar sem telur í greininni að minnkaðar togveiðar valdi sjálfkrafa aukningu á handfæraveiðum. Staðreyndirnar tala sínu máli í þessum efnum.
Greinilega er um misskilning að ræða þar sem togveiðar á þorski hafa aldrei verið minni en nú. Tölur Hagstofunnar sýna að togveiðin árið 2007 er rúmlega helmingi minni en togveiðin var árið 1992. Eflaust gleðst margur samfylkingarmaðurinn yfir gríðarlegum samdrætti í hrikalegum togveiðum en þrátt fyrir þennan mikla samdrátt togveiða segja sömu heimildir að handfæraveiðar hafi minnkað enn meira og eru einungis fjórðungur af því sem þær voru fyrir einum og hálfum áratug! Það er varla rétt að tala um sjávarauðlindina sem takmarkaða, heldur er um að ræða endurnýjanlega auðlind sem flest teikn eru á lofti um að sé vannýtt. Í fyrsta lagi segir áratugareynsla fyrir daga kvótakerfisins að hægt er að veiða að jafnaði margfalt meira en gert er nú og í öðru lagi gefa útreikningar til kynna að maðurinn tekur í raun til sín lítinn hluta af því sem fuglar himinsins og spendýr hafsins taka til sín af næringu úr hafinu. Í þriðja lagi sýnir góð reynsla Færeyinga af því að veiða tugi prósenta umfram það sem hefðbundnir reikningsfiskifræðingar leggja til að ekki sé einungis óhætt að veiða umfram ráðgjöf, heldur ábyrgðarlaust að gera það ekki eins og nú háttar til í efnahag þjóðarinnar. Frjálslyndi flokkurinn vill stórauka veiðar en það yrði til mikilla hagsbóta fyrir sjómenn, sjávarbyggðirnar og þjóðarbúið ef meira frelsi yrði gefið til fiskveiða. Sigurjón Þórðarson í öðru sæti á lista Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.