Sanngjarnar leikreglur í þágu íslensks matvælaiðnaðar
Þegar rætt er um viðskipti hér á landi, beinast sjónir manna oftar en ekki að þeirri gríðarlegu samþjöppun sem hefur orðið á matvælamarkaði. Tvær verslunarkeðjur hafa ríkjandi stöðu á markaðnum. Af þessu hafa margir áhyggjur, sem vonlegt er.
Oft er sagt að á litlum markaði eins og okkar íslenska sé hætta á samþjöppun og það er margt til í því. En samþjöppun hefur á sér skuggahliðar sem margir óttast að vonum. Á ferðum mínum um landið sem landbúnaðarráðherra og þingmaður í stóru matvælaframleiðslukjördæmi ber þessi mál mjög oft á góma. Oft eru sagðar sögur af vondum viðskiptaháttum, þar sem sá stóri neytir aflsmunar í viðskiptum við hina smærri.
Skilaskylda – umdeilanlegt fyrirkomulag
Það stendur mjög upp úr í þeirri umræðu að hin svo kallaða skilaskylda leiði til þess að mjög halli á innlenda matvælaframleiðslu. Skilaskyldan felur það í sér að verslunareigandi getur, kjósi hann svo, krafist þess að framleiðandi taki til baka framleiðsluvörur sem eru að nálgast síðasta söludag, sér að kostnaðarlausu. Þetta á við um íslenskar matvörur, en ekki þær erlendu.
Margir íslenskir matvælaframleiðendur telja að þetta fyrirkomulag skapi mjög mikla skekkju í samkeppnisumhverfinu. Á meðan innlendir framleiðendur þurfi að bera kostnað af þeirri rýrnun sem hlýst af því að vöru sé skilað, geti sá er flytur inn matvörur, komið ábyrgðinni og kostnaðinum af sér yfir á herðar kaupmannsins.
Þetta fyrirkomulag leiði síðan til þess að það skapist hvatning fyrir seljanda vörunnar að halda fremur fram þeirri vöru sem ekki er með skilaskyldu, til þess að tryggja að kostnaðurinn af rýrnun falli ekki á hann.
Þau sjónarmið hafa á hinn bóginn heyrst af hálfu seljenda að með skilaskyldu felist trygging fyrir því að ekki verði óeðlileg birgðasöfnun í verslun, með tilheyrandi kostnaði og rýrnun sem að lokum falli á neytendur í hærra vöruverði. Þess ber þó að geta að margir birgjar sjá sjálfir um að fylla á í búðunum og stýra magni, að minnsta kosti að mestu leiti.
Tillaga til þingsályktunar
Ég hef ítrekað tekið þessi mál upp á opinberum vettvangi, jafnt í ræðu sem og í riti. Þessi mál hef ég einnig rætt við ráðuneyti viðskiptamála, samkeppnisyfirvöld og ennfremur við fulltrúa þeirra verslana sem í hlut eiga.
Ljóst er að þetta mál er brýnt, en þó alls ekki alveg einfalt viðskiptis. Það er hins vegar þess eðlis að mikilvægt er að niðurstaða fáist, þannig að leikreglur séu sanngjarnar og stuðli ekki að því að veikja okkar eigin matvælaframleiðslu. Af þeim ástæðum ákvað ég að flytja þingsályktunartillögu sem er svohljóðandi:
„Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að móta reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum í verslunum, til þess að tryggja eðlilegt og sanngjarnt samkeppnisumhverfi innlendrar matvælaframleiðslu“. - Meðflutningsmenn með mér á málinu eru hópur þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem undirstrikar mikinn vilja til þess að málum þessum sé komið í skaplegt horf.
Varðar miklu
Að mínu mati varðar miklu að vel sé að þessari vinnu staðið. Varla getur orðið pólitískur ágreiningur um þetta mál, svo oft hefur það borið á góma á opinberum vettvangi og svo mjög hafa margir orðið til þess að viðra áhyggjur sínar vegna málsins. Því bind ég vonir við að þessi tillaga verði til þess að hreyfa við málinu og að hún leiði til þess að ráðin verði bót á vandamáli sem flestir viðurkenna að sé til staðar.
Mjög mikilvægt er nefnilega að um þessi mál séu til sanngjarnar leikreglur, sem tryggi samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þeirrar gríðarlegu samþjöppunar sem hefur orðið hér á landi í verslun, þar sem tvær verslunarkeðjur í matvöru ráða drýgstum hluta matvörumarkaðarins.
Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður og fyrrv. sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.