Sigurður 6. Águstsson
Ég hef verið að melta niðurstöður prófkjörsins, en ég lenti þar í 6. sæti. Fyrstu viðbrögð voru vonbrigði. Ég vissi vel að ég kem ekki úr stærsta póstnúmerinu og það er líka þekkt staðreynd að ég hef ekki unnið í sveitarstjórnum eða í flokkstarfi hingað til. Ég stefndi hærra og vildi hafa áhrif. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er magnað að fá 1104 atkvæði í 1-6 sæti af 2692 gildum atkvæðum.
Það þýðir að ríflega 4 af tíu í þessu prófkjöri greiddu mér atkvæði sitt. Fæsta hef ég hitt og fæstir vissu hver ég er, né fyrir hvað ég stend, fyrir um 3 vikum. Í þessu ljósi er árangurinn magnaður. Líklega hafa því fáir, sem ekki eru útvaldir flokksgæðingar, fengið betri kosningu í fyrsta skipti sem þeir fara fram. En því verður ekki neitað að það hefur hjálpað mér að hafa sjálfstæða og gagnrýna hugsun og þor til að ganga fram fyrir skjöldu og segja hlutina eins og þeir eru – jafnvel þó þeir kunni að styggja forystuna. Líklega eru fleiri en ég hélt sem eru sammála þeirri niðurstöðu minni að það hafi ekki bara verið bankarnir sem urðu gjaldþrota, heldur líka íslensk pólitík eins og hún hefur verið rekin undanfarið (af öllum flokkum).
En ég stefndi að 2-4 sæti. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að gefa sætið eftir, enda ekki það sem ég stefndi á, hvort ég ætti að líta á þessi úrslit sem höfnun. Í ljósi alls framangreinds þá er ljóst að það eru býsna stór hópur sem ég tala fyrir. Það eru margir sem treysta á að ég þagni ekki núna. Ég hef ákveðið að taka sætið, vinna ötullega og verða mun hærra næst. Líklega er stutt í „næst“.
Ég þakka þeim sem mig kusu og mun ekki bregðast því trausti sem mér hefur verið sýnt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.