Sjálfstæðisflokkurinn leiðandi afl í Skagafirði

Undanfarnar vikur eru búnar að vera ákaflega skemmtilegar en erfiðar og gríðarlega gefandi. Þessar vikur höfum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hitt kjósendur út um allan fjörð og átt  gott samtal um sveitafélagið okkar.

Það verður að segjast eftir öll þessi samtöl að íbúar Skagafjarðar séu bjartsýnir og nokkuð sáttir við stöðu mál í Skagafirði, þó eru mál sem að verða verkefni kjörinna fulltrúa á næsta kjörtímabili. Taka þarf strax á og leysa dagvistunar- og leikskólamál, tryggja áframhaldandi öfluga grunnskóla og að húsnæði skólanna sé í lagi. Skipulagsmál, húsnæðismál og  atvinnumál eru stór þáttur í okkar samfélagi eins og öðrum samfélögum og rauninni undirstaða þeirra grunnþjónustu sem að allir vilja veita en skauta pínu yfir það hvernig á að fjármagna hlutina. Það er ábyrðarhlutur að vera með loforðaflaum einungis til að kaupa sér atkvæði.

Fyrir 4 árum þá komst Sjálfstæðisflokkurinn aftur til valda eftir allt of langa fjarveru og árangurinn hefur ekki látið á sér standa, blómlegt líf um allan fjörð. Framkvæmdir á vegum Sveitarfélagsins hafa verið áberandi, nefna má sérstaklega hitaveituvæðingu og lagningu ljósleiðara í dreifbýli, verkefni sem  styðja við uppbyggingu og bæta búsetukosti í dreifbýli. Þá er verið að laga íþróttaaðstöðu á Sauðárkróki og unnið er að endurbótum á sundlaug Sauðárkróks, uppbygging á skíðasvæði í Tindastóli, viðbygging og endurbætur á Safnahúsið, sem og flutningur Iðju við Sæmundarhlíð, sem er vinnustaður fyrir fatlað fólk, uppbygging á glæsilegu svæði hestaíþrótta á Hólum, uppbygging á rennibraut við Sundlaugina í Varmahlíð og í rauninni hægt að telja margt annað.

Þrátt fyrir allt þetta þá er að ljúka besta kjörtímabili í rekstri Sveitafélagsins Skagafjarðar frá stofnun þess fyrir 20 árum. Samanlagður hagnaður  429 milljónir, aldrei verið meiri, eigið fé hefur aldrei aukist eins mikið eða um 516 milljónir, skuldahlutfall á hraðri niðurleið fer úr 143% niður í 117%, svona rekstur hefur ekki sést áður á einu kjörtímabili á þessum 20 árum. Með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn eru Skagfirðingar að tryggja áframhaldandi góðan rekstur sveitarfélagsins, með því að sýna aðhald, aðgætni og ábyrga fjármálastjórn og leggja þannig grunn að öflugri grunnþjónustu. Til staðfestingar á þessu segir í nýlegri skýrslu Íslandsbanka um fjármál sveitarfélaganna, Sveitarfélagið Skagafjörður: „Lítil skuldsetning og rekstur stendur vel undir núverandi skuldsetningu“. Allt þetta hefur gerst á síðustu 4 árum.

Í Skagafirði er gott að búa, menningarlífið blómstrar, félagsstarf er öflugt, íþrótta og tómstundastarf er kraftmikið og þannig viljum við hafa það, þess vegna horfum við frambjóðendur spennt til framtíðarinnar og þeirra verkefna sem að bíða okkar.

Sjálfstæðisflokkurinn setur fram metnaðarfulla stefnuskrá og framtíðarsýn með orðunum GERUM GOTT SAMFÉLAG ENN BETRA. Í stefnuskránni eru mál sem að snerta alla íbúa Skagafjarðar á einhvern hátt. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á samtal við íbúa og íbúalýðræði, opnari stjórnsýslu og gegnsæi. Sjálfstæðiflokkurinn setur lýðræðisleg vinnubrögð í öndvegi.

Sjálfstæðisflokkurinn bíður þér að kjósa hóp fólks til setu í Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Framboðslistinn er skipaður kraftmiklu fólki sem er tilbúið að takast á við krefjandi verkefni við stjórn sveitarfélagsins okkar. Sjálfstæðisflokkurinn eru tilbúinn í að vera sterkt afl í okkar samfélagi og til þess þá þurfum við stuðning til að tryggja 3 mann listans Gunnsteinn Björnsson til setu í Sveitastjórn Sveitafélagsins Skagafjarðar.

Gísli Sigurðsson Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir