Skjáskot :: Sunna Ingimundardóttir - brottfluttur Króksari

Jón Kalmann skrifaði eitt sinn um höfuðáttirnar þrjár, vindinn, hafið og eilífðina. Hann skrifaði líka um aflið sem engin getur staðist. Aflið sem togar í okkur öll. Ástina. Aflið mitt er í Skagafirði, vindurinn, hafið og eilífðin. Aflið er Skagafjörður.

Ég er fimm ára, stend inn í herbergi frænku minnar. Ég er af einhverjum ástæðum að stara á vegginn. Ég er kvíðin. Upphaflega ætluðum við að horfa á Grease en ég veit að hún setti Ghostbusters spóluna í tækið. Bókasafnsdraugurinn hræðir mig. Ég hugsa með mér að ég biðji hana bara að spóla yfir það. Vona að hún verði við því en hún er ákveðin. Ég bít á jaxlinn.

Ég er 9 ára. Mamma og pabbi eru að vekja mig um miðja nótt. Skil ekki alveg hvað þau eru að segja, eyrun eru ennþá sofandi. Þau draga mig út í bíl og keyra niður á sand. Það er sumarnótt og sólin rúllar á sjónum norður í firði. Þetta er fallegt, mamma og pabbi vita það. Þau ala í brjósti óskina og þrána um sólina sem aldrei sest á sumarlandinu.

Ég er 11 ára. Ég sit í skólarútunni á leið heim, ekki samt of aftarlega, þar sitja stóru krakkarnir. Það er ískalt og snjór. Það er rifa á hnjánum á Levi´s gallabuxunum mínum. Hún er þar viljandi. Einn af stóru strákunum kemur upp í rútuna. Hann vill fá uppskriftina af svo flottum buxum. Ég hugsa lengi hvort ég eigi að grínast með egg og hveiti, ég segi ekkert. Ég hef áhuga á tísku.

Ég er 12 ára. Ég er að labba heim eftir sundæfingu. Það er kalt, frost. Mér er illt í fótunum eftir grófa saltið á sundlaugarbakkanum. Hárið er frosið. Ég kreisti það í von um að það þiðni. Ætli hestunum sé eins kalt og mér. Að synda er eins og að svífa, fljúga. Ég hef alltaf getað flogið í draumum mínum.

Ég er 15 ára og ástfangin. Hann er líka aflið. Hann togar. Fyrsti kossinn er fyrir framan vini okkar beggja, fyrir framan alla. Það er klappað og fagnað… eða var það í hausnum á mér. Hann er það fallegasta sem hefur verið búið til.

Hvíta kollinum er náð á Króknum. Sá hvíti gefur til kynna nýtt upphaf. Árin fjögur á undan voru ólgusjór, dásamleg og skelfileg. Síðan er stefna tekin suður. Ætla að gera það sama og Pabbi. Hann er fyrirmyndin. Fyrir sunnan hverfur maður í fjöldann. Maður er enginn, þar til maður verður einhver.

Stressið er mikið, námið tekur toll. Það nær inn að beini. Friðurinn fæst með helgum fyrir norðan. Hvert skipti þegar keyrt er fram hjá skiltinu af hestinum segjum við „velkomin heim“ við hvort annað. Því að fara norður er alltaf að fara heim.

Hann er úr sveit. Það er gott. Eyþór orti um sveitina, göngurnar, loftið, tilfinningarnar og ilminn. Verki í fótum, gleði í hjarta, heiðina sem bíður. Friðurinn er í sveitinni og þá er gott að vaka.

Námið er klárað, fyrsta barnið kemur, strákurinn. Mamma er fyrirmyndin. Við flytjum í Hafnarfjörð, alveg við sjóinn, nánast ofan í sjóinn, tilviljun? Þar er heima næstu árin, þar er bærinn í borginni.

Tíminn líður. Stúlka fæðist með snjóhvítt hár, eins og vetur fyrir norðan. Tilviljun? Við flytjum í Kópavog, við útjaðarinn. Við erum í Heiðmörkinni og við hesthúsin. Tilviljun?

Við verðum meðalfjölskylda, pössum í bílinn auðveldlega. Við erum gott teymi, spilum maður á mann.

Við keyrum norður, förum fram hjá skiltinu með hestinum. Strákurinn minn segir „velkomin heim“.

Ég skora á Sunnu Björk Björnsdóttur aðkoma með pistil.

Áður birst 40. tbl. Feykis 2019. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir