Spæjaraskólinn tekur til starfa - Ráðgátur fyrir 9-12 ára krakka

Lína Rut Olgeirsdóttir, Guðmundur Valur Viðarsson og Kristín Ólafsdóttir standa að baki Spæjaraskólans sem stefnir á útgáfu fyrsta ráðgátukassans í september. Mynd aðsend.
Lína Rut Olgeirsdóttir, Guðmundur Valur Viðarsson og Kristín Ólafsdóttir standa að baki Spæjaraskólans sem stefnir á útgáfu fyrsta ráðgátukassans í september. Mynd aðsend.

Spæjaraskólann, sem er leikur fyrir 9-12 ára krakka, er hægt að fá inngöngu í á netinu á slóðinni radgatur.is. Þar er hægt að gerast áskrifandi að ráðgátum eða sögum sem aðalpersónurnar, Klara Sif og Atli Pawel, lenda í. Aðstæður eru ætíð dularfullar og þurfa þau aðstoð áskrifenda til að leysa gátuna. Í hverjum kassa má finna inngang að sögu kassans og nokkrar þrautir og verkefni sem þarf að leysa til að komast að lausn gátunnar. Á bak við Spæjaraskólann stendur þriggja manna teymi sem legi hefur haft áhuga á alls konar ráðgátum.

Guðmundur Valur Viðarsson er grafískur hönnuður og sér um alla hönnun efnis fyrir Spæjaraskólann. Hann hefur áður verið viðriðinn afþreyingu fyrir krakka, en hann var einn af stofnendum Radiant Games og var yfirhönnuður og teiknari tölvuleiksins Box Island, sem hefur það að markmiði að þjálfa rökhugsun barna í gegnum forritunarleik. Hefur leikurinn fengið fjölda viðurkenninga. Guðmundur er fæddur og uppalinn í uppsveitum Árnessýslu, en býr í dag í Reykjavík með tveimur dætrum sínum.

Kristín Ólafsdóttir er með BA-próf í lögfræði, og hefur starfað síðustu sex ár í opinberri stjórnsýslu, auk þess að reka sitt eigið fyrirtæki, Fjölnota. Kristín er framkvæmdastjóri Spæjaraskólans. Hún er fædd og uppalin á Hvammstanga, þar sem hún býr með manni og tveimur börnum.

Lína Rut Olgeirsdóttir er með meistaragráðu í lögfræði og löggildingu sem fasteignasali, en hún hefur starfað í fasteignasölu síðustu fimm ár, auk þess að reka sitt eigið fyrirtæki, Fjölnota. Lína sér um handrit ráðgátukassanna og þrautirnar. Lína er uppalin á Hvammstanga, en býr í dag á Akureyri ásamt eiginmanni og tveimur dætrum.

„Verandi foreldrar höfum við einnig brennandi áhuga á því að veita börnum okkar þroskandi og krefjandi afþreyingarefni sem hæfir þeim, þar sem þau eru ekki límd við skjá,“ segir Lína Rut. „Hugmyndin á bak við Spæjaraskólann er í stuttu máli sú að veita krökkum skemmtilegt afþreyingarefni, sem er á sama tíma áskorun. Efnið er samsett þannig að krakkarnir verða að leggja sitt af mörkum til að leysa gátuna, því annars gengur dæmið ekki upp. Spæjaraskólinn gefur krökkum tækifæri til að upplifa sig sem hluta af teyminu og að þau geri gagn við lausn gátunnar.“

Ráðgátur og rökvísi
Lína segir ráðgátukassa vinsæla afþreyingu erlendis, en þar er þeim einkum beint að fullorðnum. „Ráðgátukassar er skemmtileg leið til að þroska ályktunarhæfni, lífsleikni og rökhugsun, auk þess að læra að meta upplýsingar. Sögurnar í kössunum byggja á samfélagi okkar og sögu, og með því vonumst við til að vekja áhuga krakka á samfélagi okkar og sögu.“

Spæjaraskólinn sendir út kassa sex sinnum á ári. Efni kassans er skipt í umslög, en aðeins má skoða laus gögn í kassanum þar til leyfi fæst til að opna fyrsta umslagið og svo koll af kolli. Sumar lausnir þarf að slá inn á vefsíðu til að vita hvort maður hafi leyst þrautina á réttan hátt, en þar verður jafnframt hægt að nálgast vísbendingar.

Í hverjum kassa felst afþreying sem er á sama tíma áskorun og gefur krökkum tækifæri til að upplifa sig sem hluta af teyminu. Hver kassi á að veita u.þ.b. tvær klukkustundir af afþreyingu.

„Ráðgátukassar er skemmtileg leið til að æfa og þroska ályktunarhæfni, lífsleikni og rökhugsun. Til að aðstoða við að uppfylla þessi markmið höfum við fengið til aðstoðar við okkur kennara, íslenskufræðing, rithöfunda, o.fl. Spæjaraskólinn stefnir á að gefa út fyrsta kassann í september, en við hvetjum þá sem hafa áhuga á að fylgjast með verkefninu til að fylgja okkur á Facebooksíðunni Spæjaraskólinn, en svo má skrá sig á póstlista á www.radgatur.is.

Áður birst í 31. tbl. Feykis 2019

 

.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir