Sporin hræða

Sem þingmaður Norðvesturkjördæmis þá er ég afar ósátt við sameiningar á heilbrigðisstofnunum í kjördæminu. Þess ber að geta að um er að ræða einhliða ákvörðun heilbrigðisráðherra. Þetta er ekki ákvörðun Alþingis og ekki hefur verið tekið tillit til sjónarmiða þingmanna kjördæmisins. Afar brýnt er að mínu mati að endurskoða þessa ákvörðun og hefja tafarlaust samvinnu og samráð við íbúa sveitarfélaganna sem hér um ræðir.

Ef sameiningarnar ná fram að ganga, eins og allt virðist benda til, þá er mikilvægt að standa vörð um það þjónustustig sem veitt er á umræddum heilbrigðisstofnunum í dag. Ef eitthvað er, þá þarf að auka það. Alltof oft eru einstaklingar sendir frá sinni heimbyggð til læknis í höfuðborginni. Það kostar mikla fjármuni og er vinnutap í mörgum tilvikum. Jafnframt er öflugt þjónustustig á heilbrigðisstofnunum mikið öryggismál fyrir íbúa sveitarfélaga og það sem margir horfa til þegar búsetu er valinn staður.

Alltof oft hafa íbúar þessara sveitarfélaga heyrt að sameining sé eingöngu hagræðing hjá yfirstjórn stofnanna eða fyrirtækja, en raunin hefur því miður, oft verið önnur. Störf hafa verið flutt frá sveitarfélögunum í of miklu mæli. Hvert starf skiptir máli. Þetta er afar einfalt, sporin hræða í þessu tilviki og skil ég það mæta vel.

En hvað er hægt að gera? Mikilvægt er að mínu mati að standa vörð um að þjónustustigið haldi sér eða verði aukið. Jafnframt þarf að passa upp á að nægt fjármagn renni til stofnanna. Ef eitthvað bendir til þess að þjónustustigið verð minnkað eða fjármagnið minna, þá er ekkert annað í stöðunni en að leggja fram breytingar á lagafrumvarpi sem tryggi fjármagn og gott þjónustustig til umræddra heilbrigðisstofnanna.

Elsa Lára Arnardóttir

- Þingmaður Framsóknarflokksins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir