Starfsemi Íbúðalánasjóðs efld
Ein af megináherslum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjölgun starfa á landsbyggðinni. Í þessu samhengi er mikilvægt að horfa til Skagafjarðar sem á síðasta kjörtímabili undir stjórn ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna tapaði um 50 opinberum störfum. Ekkert samfélag þolir það að tapa svona mörgum störfum sem óhjákvæmilega fylgir fólksfækkun þegar fólk neyðist til að flytja sig og fjölskyldur sínar til að finna atvinnu. Þetta er óheillaþróun sem verður að snúa við.
Nýlega skilaði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála niðurstöðum vinnu sinnar. Megin markmið vinnunnar var að:
§ Kanna hvaða fyrirkomulag á fjármögnun almennra húsnæðislána á íslenskum húsnæðislánamarkaði sé hagkvæmast og hvernig slíku fyrirkomulagi verði komið á.
§ Skoða hvernig unnt sé að tryggja virkan leigumarkað hér á landi sem og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa.
§ Kanna hvernig stjórnvöld geti sinnt afmörkuðu hlutverki sem felist í veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.
Meðal tillagna hópsins er að Íbúðalánasjóði verði breytt varanlega og núverandi verkefnum hans skipt upp, annars vegar í nýtt húsnæðislánafélag og hins vegar verði þeim félagslegu verkefnum sem Íbúðalánasjóður sinnir í dag, ásamt viðbótaverkefnum sem lögð eru til af verkefnisstjórn, sinnt sérstaklega af sérstakri húsnæðisstofnunar sem tekur við félagslegu hlutverki Íbúðalánasjóðs og fylgir húsnæðisstefnu stjórnvalda eftir. Íbúðalánasjóður mun í nýju kerfi hætta að veita lán samkvæmt núverandi fyrirkomulagi en þeir sem eiga lán hjá sjóðnum munu áfram fá óbreytta þjónustu. Þá er áhersla lögð á að áfram verði viðskiptavakt með íbúðabréf svo lengi sem þörf er á.
Verkefnisstjórnin lagði í vinnu sinni mikla áherslu á jafnræði eftir búsetu. Í tillögum hennar er gert ráð fyrir að nýjum húsnæðislánafélögum verði gert skylt að veita þjónustu um allt land en ekki aðeins til valinna svæða. Samhliða þessu er mikil áhersla á uppbyggingu leigumarkaðar og stofnun húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni til að tryggja hagstæða leigu. Það er ljóst að hér í Skagafirði er verulegur skortur á leiguhúsnæði og því er fagnaðarefni að nú skuli horft til þess að ríki og sveitarfélög muni horfa til uppbyggingar þar sem skortur er á leiguíbúðum.
Á starfsstöð Íbúðalánasjóðs í Skagafirði starfa 23 einstaklingar með mikla reynslu og þekkingu á húsnæðismálum. Þar er grunnur til staðar sem hægt er að byggja á til framtíðar. Þannig er ljóst að litið verður sérstaklega til þess í þeim breytingum sem framundan eru að nýta þennan mannauð og sérþekkingu á húsnæðismálum á landsvísu.
Sú áhersla að horfa sérstaklega til landsbyggðarinnar þegar kemur að hlutverki ríkisins á húsnæðismarkaði er líka í miklu samræmi við stjórnarsáttmálann. Mikilvægt er að halda áfram góðu samstarfi sveitarstjórnarmanna og ráðuneytisins í þessari uppbyggingu. Það gerist of oft að horft er framhjá heimamönnum á landsbyggðinni þegar ákvarðanir eru teknar. Það verður ekki gert í þessu mikilvæga máli, samstarf og samráð milli sveitastjórnarmanna og ráðuneytisins verður tryggt til farsældar fyrir Skagafjörð og landið allt.
Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðaráðs Svf. Skagafjarðar og
Matthías Páll Imsland aðstoðarmaður Velferðarráðherra
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.