Stefnumótun til framtíðar er grunnurinn að góðu samfélagi

„Hver er munurinn á ByggðaListanum og öðrum listum?“ var ég spurður að um daginn og ég áttaði mig á að nauðsynlegt væri að koma helstu hugðar- og áhersluefnum hópsins betur á framfæri.

Listinn er skipaður af að því er virðist ótengdum einstaklingum á ýmsum aldri með ólíkan bakgrunn, fjölbreytilega menntun og starfsvettvang. Af þeim sökum nást fram sjónarmið fólks víðsvegar að úr samfélaginu. Við brennum fyrir að byggja upp og þróa samfélag sem mætir þeim þörfum sem nýtt og stærra sveitarfélag kann að hafa, móta skýra framtíðarsýn og vinna í haginn.

ByggðaListinn er ekki háður hefðbundinni flokkspólitík og getur með því virkjað mannauðinn og skapað hugmyndir með frelsið að leiðarljósi. Frelsi til tjáningar og fjölbreytileiki hópsins gerir það að verkum að við virðum og sinnum lýðræðinu jafnt innan hópsins sem utan. Frelsið er grunnur að sjálfræði og sjálfstæði okkar Íslendinga en við þurfum að gá að því að taka því ekki sem sjálfsögðum hlut. Hugmyndafrelsi skapar rými fyrir nýsköpun og þróun í atvinnumálum og styrkir fjölbreyttar þarfir samfélagsins. Við erum staðráðin í að vinna að breytingum sem verða íbúum sveitarfélagsins til hagsbóta, varðveita sögu okkar og menningu og vernda hreinleika héraðsins. Við skorumst ekki undan að taka þátt í fjárfestingum sem bjóða íbúum betri lífsgæði til lengri tíma án þess að missa sjónar á fjárhagi og fjárhagsörðugleikum.

Út frá þessum forsendum má líta á starf sveitarstjórnarmanna sem tvíþætt, annars vegar áhrif á daglegan rekstur sveitarfélagsins og hins vegar eftirfylgni með stefnumótun til framtíðar. EN hvert viljum við stefna? Og hvernig mótum við stefnu sem þjónar sameiginlegum hagsmunum samfélagsins sem við búum í? Stefnumótun er eitt af stóru verkefnum sveitarstjórnarmanna. Að móta raunhæfa stefnu og framkvæma hana er áskorun sem krefst frumkvæðis, seiglu og vilja til að fara í hugmyndarvinnu til framtíðar.

ByggðaListinn er sannfærður um að eitt af því mikilvægasta í okkar samfélagi sé að styðja við og styrkja innviði fyrir börnin okkar. Hugmyndir um stækkun Árskóla á Sauðárkróki þurfa að komast í öruggari farveg og framkvæmdina þarf að fastsetja á tímaáætlun. Eins þarf að tryggja nægt frístundapláss í Árvist fyrir börn í 1. – 3. bekk en plássleysi hefur verið viðvarandi vandamál þar undanfarið. Jafnframt þarf að vera forgangsatriði að bæta aðstöðu til list-, verk- og raungreinakennslu í grunnskólunum og er aðstaða til tónlistarkennslu þar með talin. Það er algjörlega óboðlegt að í hluta skólahúsnæða í héraðinu sé aðstaða til að sinna þessum greinum varla til staðar. Bygging íþróttahúss á Hofsósi er einnig forgangsatriði í okkar huga en aðstöðuleysi til íþróttakennslu og iðkunar þar hefur verið vandamál svo áratugum skiptir. Aðstöðuleysi í skólamálum hefur neikvæð áhrif á íbúaþróun og byggðafestu og ef við viljum að íbúum fjölgi og mannlíf blómstri um allt hérað verða þessir þættir að vera í lagi!

Uppbygging leikskólahúsnæða á Sauðárkróki og í Varmahlíð eru önnur verkefni sem eru okkur ofarlega í huga. Bráðabirgðahúsnæði sem uppfylla ekki kröfur leysa engan vanda þegar til langs tíma er litið og því þarf í stækkandi samfélagi að huga að framtíðarlausnum í þessum málum hið fyrsta. Við sem stöndum að ByggðaListanum ætlum okkur að vinna með langtímalausnir og framtíðarsýn byggða á framtíðargreiningu á þörfum samfélagsins. Í sameinuðu sveitarfélagi þurfum við að koma upp raunsæju verklagi, þar á meðal að forgangsraða, að gera raunhæfa fjárhagsáætlun og framkvæma til að mæta þörfum íbúanna.

Fulltrúar ByggðaListans vilja í samstarfi við ríkið koma jarðgöngum undir Öxnadalsheiði inn á samgönguáætlun. Jarðgöng á þessum stað eru gríðarlega mikilvægt öryggisatriði fyrir alla íbúa á Norðurlandi vestra til þess að hafa greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu sem sækja þarf til Akureyrar.

Ofangreind málefni eru brýn og frekari uppbygging innviða er þörf til að bæta grunnþjónustu. Sú vinna þarf að vera ofarlega á forgangslista næstu sveitarstjórnar og því stingur svolítið í stúf að verið sé að binda hendur nýrra sveitarstjórnamanna með mörghundruð milljóna króna fjárfestingu til margra ára til byggingar nýs menningarhúss. þegar aðeins einn mánuður er eftir af kjörtímabilinu. Þeim fjármunum sem á að veita í nýtt menningarhús væri betur varið í að halda við, endurbæta og byggja upp starfsemi í þeim húsnæðum sem sveitarfélagið á nú þegar.

Skuldir sveitarfélagsins, bæði A og B hluti, hafa hækkað umtalsvert síðust ár, úr 6,8 milljörðum kr. í 8,6 milljarða kr (tekið úr ársreikningum frá 2018 til 2021). Þetta samsvarar nærri 25% hækkun skulda sveitarfélagsins á kjörtímabilinu.

Tekjur hafa hækkað, útsvar hefur hækkað en einhvern veginn virðist skuldastaða sveitarfélagsins ekki lækka. ByggðaListinn telur að það þurfi að gera það að forgangsverkefni að reyna að lækka skuldastöðuna með því að skipuleggja og áætla markvisst og framkvæma eftir fjárhagsgetu.

Sveinn Úlfarsson
skipar 2. sæti á Byggðalistanum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14 .maí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir