Stiklað á stóru í sögu FNV - Fjörtíu ára fjölbrautaskóli

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra fagnaði þann 21. september sl. 40 ára afmæli sínu með hátíðardagskrá á sal Bóknámshússins að viðstöddum góðum gestum. Fluttar voru ræður og saga skólans rifjuð upp í máli og myndum. Í tilefni tímamótanna mun Feykir birta nokkra pistla um skólann og að þessu sinni stikla á stóru í sögu skólans. Stuðst er við upprifjun þá sem Ingileif Oddsdóttir, skólameistari og Jón F. Hjartarson, fv. skólameistari, flutti á fyrrnefndum afmælisfagnaði.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra var stofnaður árið 1979 og settur í fyrsta sinn 22. september sama ár, þá undir heitinu Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki. Skólameistari var ráðinn Jón F. Hjartarson sem stýrði skólanum farsællega til loka skólaárs 2011 er núverandi skólameistari, Ingileif Oddsdóttir tók við. Stofnendur skólans voru í upphafi ríkissjóður og Sauðárkrókskaupstaður en fram að þeim tíma hafði verið starfræktur Iðnskóli á Sauðárkróki frá árinu 1946 og framhaldsdeild við Gagnfræðaskólann á Sauðárkróki frá árinu 1977. Á þessum tíma voru íbúar Sauðárkróks tæplega 2000 þúsund manns og má með sanni segja að framsýni bæjarstjórnar Sauðárkróks hafi verið mikil. Fljótlega gerðust allir þéttbýlisstaðir á Norðurlandi vestra, frá Hvammstanga til Siglufjarðar, ásamt hreppum í nágrenni Sauðárkróks, aðilar að rekstri skólans.

Í fréttatilkynningu um stofnun skólans segir að við skólann verði starfræktar eftirfarandi námsbrautir:
Fiskvinnslubraut 1 og 2
Iðnbrautir tréiðna, málmiðna og rafiðna
Sjúkraliðabraut
Viðskiptabraut
Almennar bóknámsbrautir, þ.e. náttúrufræðabraut og uppeldisbraut.

Alls hófu 75 nemendur nám við skólann á fyrstu önn.

Strax var ljóst að til þess að skólinn gæti vaxið of dafnað í framtíðinni þyrfti að reisa heimavist og var fyrsti áfangi hennar tekinn í notkun árið1976. Fram að þeim tíma hafði skólinn leigt herbergi víða í bænum fyrir þá nemendur sem á því þurftu að halda. Árið 1983 var stigið mikið framfaraskref fyrir starfsemi skólans er fyrsti áfangi verknámshúss var tekinn í notkun og komust þá málm- og rafiðnagreinar í varanlegt húsnæði. Það var svo árið 1985 sem annar áfangi heimavistar var tekinn í notkun. Tíu árum eftir stofnun skólans voru um 300 nemendur við skólann.

Árið 1990 gerðu héraðsnefndir V-Húnvetninga, A-Húnvetninga, Skagfirðinga og Siglufjarðarkaupstaðar samning um rekstur skólans. Þá fékk skólinn nafnið Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Enn var stigið stórt skref í skólastarfinu árið 1994 er nýtt Bóknámshús var tekið í notkun. Fram að þeim tíma var kennt á ýmsum stöðum í bænum en flestar skólastofurnar voru staðsettar á 3. hæð höfuðstöðva Kaupfélags Skagfirðinga á Ártorgi. Á 20 ára afmæli skólans voru rúmlega 400 nemendur í skólanum, tíu árum síðar voru nemendur við skólann 450 talsins.

Fyrir níu árum síðan, eða árið 2010, var enn eitt heillaskrefið stigið fyrir skólann þegar ný viðbygging við verknámshúsið var tekin í notkun og tréiðngreinar fengu veglegt rými fyrir sig. Ári síðar var hátæknisetur opnað í verknámshúsinu og var tilkoma þess sögð, í ávarpi skólameistara, lykill að framförum í nútíma iðnaði og framleiðslu þar sem skólar eigi að leiða þá þróun en ekki fylgja í kjölfarið.

Metnaður sem skilar sér í margfalt öflugra samfélagi
Síðustu ár hafa um 500 nemendur stundað nám við skólann og námsbrautum fjölgað hægt og stígandi en brautskráðir nemendur frá upphafi til dagsins í dag eru alls 2.663. Í dag býður skólinn upp á bóknám, verknám, ýmiss konar starfsnám og fjarnám. Af nýjungum hin síðari ár má t.d. nefna hestanám við skólann, kvikmyndanám, körfuboltaakademíu og fótboltaakademíu. Alls vinna í dag um 60 starfsmenn við skólann.

Skólinn rekur, í samstarfi við Strandabyggð, Húnaþing vestra og sveitarfélögin í Austur-Húnavatnssýslu, dreifnámsstöðvar á Hólmavík, Hvammstanga og Blönduósi og kom fram í máli Þorleifs Karls Eggertssonar í afmælishófinu, formanns stjórnar SSNV, hve mikilvægur skólinn væri fyrir Norðurland vestra, enda ekki sjálfgefið að á svæðinu væri starfræktur framhaldsskóli. Útskýrði hann hvernig dreifnámið hefði breytt miklu fyrir nemendur. „Stærsta breyting sem hefur átt sér stað fyrir menntun á Norðurlandi vestra er dreifnámið. Það er ómetanlegt fyrir alla að geta stundað nám heiman frá sér, verið tveimur árum lengur heima.“

Það eru ekki bara unglingarnir sem skólinn sinnir því stóru hlutverki gegnir hann  þegar kemur að menntun fullorðinna. Á þessu skólaári eru t.d. þrír hópar í helgarnámi í húsasmíði og fyrsti hópurinn í helgarnámi í rafiðnum. Skólinn hefur einnig verið í samstarfi innan Fjarmenntaskólans, bæði varðandi almenna bóklega áfanga og sjúkraliðanám. Sjúkraliðanámið hefur á undanförnum árum verið í samvinnu við Menntaskólann á Ísafirði og Verkmenntaskóla Austurlands. Mikil aðsókn hefur verið í námið og var svo komið í haust að ekki var hægt að verða við öllum umsóknum.

Öllu námi í framhaldsskóla er skipað á fjögur hæfniþrep sem skarast annars vegar við grunnskólastig og hins vegar við háskólastig. Með þrepunum er lýst stigvaxandi kröfu um þekkingu, leikni og hæfni nemenda í átt til sérhæfingar og aukinnar menntunar. Námslok námsbrauta eru tengd við hæfniþrep. Lokamarkmið námsbrauta kallast hæfniviðmið og segja til um þá hæfni sem stefnt er að nemendur búi yfir við námslok. Nú á haustönn eru í fyrsta sinn allar námsbrautir við skólann kenndar samkvæmt nýrri námskrá.

„Skólinn er gríðarlega mikilvægur fyrir framþróun samfélagsins. Eftir því er tekið hversu mikill metnaður er lagður í fræðslumál á öllum skólastigum hér í byggðarlaginu. Þessi metnaður mun skila sér í margfalt öflugra samfélagi okkur öllum til heilla,“ segir í kveðju sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sendi til skólans í tilefni 40 ára afmælisins.

Áður birst í 38. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir