Styðjum Helga Kr. Eftir Ólaf Baldursson
Helgi Kr. Sigmundsson læknir sækist nú eftir fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í norðvesturkjördæmi. Ég kynntist Helga afar vel sem starfsfélaga og nágranna meðan við vorum við nám og störf við University of Iowa í Bandaríkjunum fyrir um tíu árum. Þetta voru tímar þrotlausrar vinnu og náms og vinnuvikan gat farið í 90-100 klst.
Helgi stóðst þetta álag með miklum sóma og náði síðar þeim árangri að fá stöðu við eina öflugustu meltingarsjúkdómadeildina vestan hafs, í Cleveland. Umsækjendur um slíkar stöður skipta mörgum tugum og koma alls staðar að, með prófgráður og reynslu í farteskinu. Hann er sem sagt fagmaður eins og þeir gerast bestir.
En Helgi er einnig mikill og góður fjölskyldumaður og með eindæmum hjálpsamur. Því fengum við að kynnast þegar við áttum þau hjónin að nágrönnum vestur í Bandaríkjunum þar sem þau veittu okkur ómetanlegan stuðning og félagsskap.
Helgi er sérlega skarpskyggn maður og glöggur á röksemdir. Þá sjaldan að við erum ósammála, varpar hann iðulega ljósi á nýja fleti eða finnur kjarna máls sem gerir mann skák og mát. En þetta gerir hann ekki með gassagangi heldur drengilega enda maðurinn með eindæmum heiðarlegur og hreinskiptinn. Helgi býr yfir reynslu og víðsýni eftir nám og störf heima og erlendis enda ber hann gott skynbragð á mannlegt eðli sem gerir hann í senn að heiðarlegum raunsæismanni og húmanista. Þetta er því miður sjaldgæf manngerð í íslenskri pólitík, manngerð sem okkur bráðvantar á þessum tímum óraunsæis og draumóra í kjölfar agaleysis og ónærgætni í garð þjóðarinnar. Ekki sakar að hann ber einnig með sér heilbrigðan skammt af ættjarðarást, sem Ísland þarfnast nú sem aldrei fyrr í brjóstum stjórnmálamanna sinna. En mitt í þessu öllu er samt stutt í húmorinn, sem hann beitir ekkert síður á sjálfan sig en aðra og skapar þannig þægilega nærveru og opin skoðanaskipti.
Ég skora á Sjálfstæðismenn í norðvesturkjördæmi að láta sér ekki happ úr hendi sleppa, og styðja Helga í komandi prófkjöri. Nýtilegri maður er vandfundinn.
Bestu kveðjur,
Ólafur Baldursson
Aðstoðarframkvæmdastjóri lækninga
Landspítala
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.