Sveitarstjórnir gangi rösklegar fram fyrir skjöldu
Óhætt er að segja að boðaður niðurskurður við heilbrigðisstofnanirnar á Sauðárkróki og Blönduósi sé reiðarslag fyrir þessi byggðarlög. Þó að ljóst sé að almennur niðurskurður sé óhjákvæmilegur í heilbrigðisþjónustu líkt og á mörgum öðrum sviðum í kjölfar efnahagshruns á Íslandi þá verður því ekki unað að hærra sé reitt til höggs hér en annarsstaðar. Sú hæverska sem forsvarsmenn sveitarstjórna á svæðinu hafa sýnt í að tala máli heilbrigðisstofnananna og verja þjónustu þeirra jaðrar við uppburðarleysi. Eins og oft áður á undanförnum árum skortir á eftirfylgni þegar hagsmunir svæðisins eru undir í samskiptum við stjórnvöld á hverjum tíma. Hér þarf að ganga rösklegar til varna.
Höggvið gegn grunnstoðum samfélags og velferðarþjónustu
Sveitarstjórnir á svæðinu þurfa nú þegar að taka saman höndum og skora á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir endurskoðun á þeim mikla niðurskurði sem Heilbrigðisstofnunum á Sauðárkróki og á Blönduósi er gert að taka á sig, langt umfram flestar aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu. Með boðuðum niðurskurði er höggvið gegn grunnstoðum samfélags og velferðarþjónustu í þessum héruðum. Þá er algerlega óviðunandi að þjónusta ljósmæðra við barnshafandi konur verði skert og fæðingardeild heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki lokað. Áætla má að hátt í 100 konur í Skagafirði og austur Húnavatnssýslu njóti nú ljósmæðraþjónustu á svæðinu. Skortur á ljósmæðraþjónustu ógnar öryggi kvenna og barna og hefur í för með sér óheyrilegan kostnað í formi sjúkraflutninga og ferðakostnaðar.
Heilbrigðisráðherra svari kallinu
Forgangsröðun stjórnenda heilbrigðisstofnanna við framkvæmd niðurskurðar er ekki hafin yfir gagnrýni og mikilvægt að heimamenn fái ríkari tækifæri til að koma að ákvörðunum um rekstur og framkvæmd þjónustu við heilbrigðisstofnanir, m.a með endurreisn sjúkrahússtjórna. Mikilvægast er þó að stjórnvöld og heilbrigðisráðherra sjái til þess að heilbrigðisstofnunum sé tryggður sá rekstrargrunnur að við getum talað um velferðarsamfélag sem nær til landsins alls. Almenningur í Húnavatnssýslum og Skagafirði hefur enn á ný risið til varna fyrir heilbrigðisstofnanirnar okkar. Skemmst er að minnast þess að fyrir rúmu ári stóð til að leggja þessar stofnanir niður og flytja stjórn þeirra og hluta þjónustu til Akureyrar. Með samhentu átaki tókst að forða því. Frumkvæði og dugnaður Bóthildar Halldórsdóttur, Helgu Sigurbjörnsdóttur og fleiri í baráttunni nú er ómetanlegur. Það er heilbrigðisráðherra að svara því kalli og taka fjárveitingar til heilbrigðisstofnanna á Sauðárkróki og Blönduósi til gagngerar yfirferðar og endurskoðunar í ljósi þeirrar þjónustu sem þær þurfa og er ætlað að veita.
Bjarni Jónsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.