Sýndarveruleiki meirihluta

Fyrir rúmlega ári síðan sendi undirrituð fyrirspurn til Byggðarráðs Skagafjarðar og óskaði eftir að fá nánari upplýsingar um samninga þá sem Sveitarfélagið hafði gert við fyrirtækið Sýndarveruleika ehf. Svar meirihluta Byggðarráðs var á þá leið að samningur við Sýndarveruleika ehf. væri viðskiptasamningur og því trúnaðarmál vegna viðskiptahagsmuna (sjá fundargerð Byggðarráðs þann 5. apríl 2018).

Sem íbúa héraðsins þótti mér að um of mikla fjármuni almennings væri að ræða svo hægt væri að fela upplýsingar í nafni viðskiptahagsmuna. Ég sendi því erindi mitt til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál í apríl 2018. Tæpu ári seinna fékk ég símtal frá fulltrúa Úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem spurði hvort mér hefði verið veittur aðgangur að umræddum samningi. Ég gat upplýst hann um að ég hefi nýverið fengið þann aðgang, en ástæða þess væri eingöngu sú að ég hefði tekið sæti í sveitarstjórn.

Það er afleitt að stjórnsýslan sé með þessum hætti. Að það taki tæpt ár að fá viðbrögð frá Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, símtal sem breytti ekki neinu. Það sýnir hversu takmarkað aðhald almenningur hefur á stjórnsýslunni og um leið hversu mikilvægt gagnsæi er. 
Samningurinn hefur nú að mestu leyti verið opinberaður en sumt er og verður áfram falið í skjóli trúnaðar.

Aðgengi fyrir alla
Kostnaður Sveitarfélagsins við Aðalgötu 21 var áætlaður 200 milljónir króna eftir samþykkt á viðauka við fjárhagsáætlun 2018. Nú liggur fyrir til samþykktar hjá Sveitarstjórn viðauki upp á 97,5 milljónir sem sagður er koma til vegna nýrra verka, sem snúa meðal annars að aðgengismálum fatlaðra og brunavörnum. Það er einkennilegt ef ekki var gert ráð fyrir þessum mikilvægum þáttum á upphaflegri fjárhagsáætlun, en í 2. grein Byggingarreglugerðar Umhverfisráðuneytis segir m.a.: “Aðgengi fyrir alla: Með aðgengi fyrir alla er átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða.” Maður hefði ætlað að aðgengi fyrir alla hefði átt að liggja fyrir á fjárhagsáætlun frá upphafi breytinga Aðalgötu 21.

300 milljónir á kostnað innviða
Ávinningur Sveitarfélagsins sem Deloitte spáir fyrir um næstu 30 árin og miðar við gríðarlega aðsókn að sýningunni árlega, ætti að vera 130 milljón króna hagnaður fyrir Sveitarfélagið eða rúmar 4 milljónir á ári (m.a. í formi skatttekna af starfsfólki sem þar starfar við upplýsingamiðstöð og þiggur laun sín frá sveitarfélaginu). Nú er hægt að draga strax frá þeirri tölu 97,5 milljónir og að auki kostnað við lántöku 47,5 milljóna. Kostnaður við verkið er því kominn í tæpar 300 milljónir króna fyrir utan vexti við lántökur vegna verksins. Þá er ekki mikið eftir af fyrrnefndum uppreiknuðum ávinningi.

Á meðan eru leikskólamál í Varmahlíð og á Hofsósi í uppnámi. Engin íþróttaaðstaða er við Grunnskólann Austan vatna. Viðhaldi bygginga Sveitarfélagsins er víða ábótavant. Matarþjónusta við eldriborgara í dreifðri byggð er engin. Að ógleymdu verðlauna Byggðarsafni Skagfirðinga sem enn er á hrakhólum.

Með öðrum orðum, innviðir sveitarfélagsins gjalda fyrir það að 300 milljónir eru settar í gæluverkefni meirihlutans. Í mínum huga er aðkoma Sveitarfélagsins að Sýndarveruleika ehf. ekkert annað en áhættufjárfesting sem sveitarfélög eiga aldrei að taka þátt í.

Ég óska sýningu Sýndarveruleika ehf. góðs gengis. Hugmyndin er áreiðanlega ljómandi og er ég sannfærð um að aðkoma Sveitarfélagsins var með öllu óþörf miðað við bjartar spár Deloitte um velgengni sýningarinnar.

Álfhildur Leifsdóttir
Sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir