Tækifærin á landsbyggðinni - Áskorendapistill Sveinbjörg Pétursdóttir Hvammstanga

Fólksflótti af landsbyggðinni er eitthvað sem við heyrum reglulega í umræðunni. Þá virðist þetta einnig vera skilgreint sem vandamálið að halda unga fólkinu í heimabyggð. Umræðan er gjarnan á þá leið að við þurfum að halda unga fólkinu á svæðinu, halda því hérna í framhaldsskóla, háskóla og þar fram eftir götunum til að auka líkur á því að þau vilji búa á svæðinu þegar fullorðinslífið er tekið við.

Að mínu mati þurfum við að hætta að skilgreina þetta sem vandamál. Við þurfum að breyta viðhorfinu og orðræðunni. Þetta er tækifæri. Það er jákvætt að ungt fólk vilji sækja sér menntun eða reynslu út fyrir sinn heimabæ, hvort sem er innanlands eða utan. Það skapar víðsýni. Að ungt fólk hafi tækifæri til að fara út í heim, skoða sig um, verða reynslunni ríkari og koma svo aftur heim. Við eigum að vilja að þau fari, afli sér þekkingar og reynslu. Komi svo til baka með þekkinguna og reynsluna í samfélagið svo að samfélagið verði ríkara. En til þess að þau komi til baka þurfum við að búa þannig um hnútana að þau sjái sér hag í því, að til staðar séu atvinnutækifæri eða að minnsta kosti frjósamur jarðvegur til að koma eigin verkefnum á koppinn.

Að sjálfsögðu þurfa ekki allir að fara til að sækja nám eða afla sér reynslu. Enda væri lífið fátæklegt ef allir myndu alltaf hegða sér eins. Við búum svo vel að vera flest hver, þó vissulega því miður ekki öll, ágætlega nettengd og möguleikar til náms í gegnum netið hafa stóraukist. Þó svo að það sé jákvætt að fara í burtu í nám þá er líka jákvætt að fara ekki. Það er viðhorfið sem hver og einn kýs að hafa sem skiptir máli. Takið eftir að ég nota orðið kýs, það er aðalatriðið. Ég ákveð sjálf hvernig ég kýs að horfa á málið, hvort að það er vandamál eða tækifæri. Breytt viðhorf kemur okkur langt.
Tækifærin eru til staðar, við þurfum bara að grípa þau! 

Ég skora á Gretu Clough, menningarfrömuð með meiru, að taka við pennanum.

Áður birst í 6. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir