Það er enginn að snuða Breta og Hollendinga
Flestir hafa nú áttað sig á því, að engin lagaleg skylda hvílir á Íslendingum að samþykkja Icesave-kröfur Breta og Hollendinga. Fólk sér, að enginn bendir á neina lagareglu sem gæti gert íslenska skattgreiðendur ábyrga fyrir kröfunni. Auðvitað er það svo, að ef slík regla væri fyrir hendi, þá væri einfaldlega bent á hana og þar með væru önnur rök fyrir kröfunni óþörf. Þá væru Bretar og Hollendingar líka löngu farnir í mál, því enginn þarf að efast um að menn, sem beita okkur hryðjuverkalögum, myndu ekki hlífa okkur eitt andartak við dómsmáli, ef þeir teldu sig hafa minnstu von um að vinna það.
En þegar flestir sjá að lagaskyldan er engin þá reyna Evrópusinnar að halda því fram að Íslendingum beri siðferðileg skylda til að gangast í ábyrgð fyrir kröfunum. Þeir vita sem er, að meginþorri Íslendinga er gott og heiðvirt fólk sem er viðkvæmt fyrir að vera sagt fara illa með aðra. Þess vegna er nú í ákefð reynt að segja fólki, að okkur beri að samþykkja kröfurnar, því við séum „að mismuna útlendingum“.
Óþarfar áhyggjur
Menn mega ekki gleyma því, að Icesave-kröfur Breta og Hollendinga snúast um skuldir fallins einkabanka, sem ríkisstjórnir Breta og Hollendinga ákváðu upp á sitt eindæmi að borga, og þeir reyna nú að senda íslenskum skattgreiðendum reikninginn fyrir framtaki sínu – og heimta meira að segja ríkulega vexti til viðbótar. Íslendingar hafa alls ekki farið illa með Breta eða Hollendinga í málinu. Alþingi Íslendinga setti neyðarlög sem stórbættu hag Breta og Hollendinga og færðu þeim hundruð milljarða til viðbótar því sem þeir ella hefðu fengið. Menn þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að Íslendingum hafi farist illa við Breta og Hollendinga eða að við höfum í nokkru látið Breta gjalda hryðjuverkalaga og annarrar vinsemdar sem þeir hafa sýnt okkur.
Virtustu fjármálablöð heims styðja okkur
Enginn myndi lá því fólki, sem aðeins fylgist með Evrópusinnuðum íslenskum fjölmiðlum, þótt það tryði því að málstaður Íslands njóti einskis stuðnings erlendis. Svo er þó alls ekki. Má þar nefna að virtustu viðskiptablöð heims, Financial Times og Wall Street Journal, hafa í leiðurum lýst stuðningi við málstað Íslands. Sá stuðningur segir meira en mörg orð í mörgum greinum gætu sagt. Það er alveg augljóst, að ef Íslendingar væru í raun að brjóta á Bretum og Hollendingum, ef við værum að mismuna fólki, þá myndu virtustu viðskiptablöð heims ekki verja okkur í leiðurum sínum. „Verði lögin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í apríl þýðir það að Ísland gæti orðið veðsett London og Haag í allt að 35 ár – vegna þess að bresk og hollensk yfirvöld ákváðu, að eigin frumkvæði, að leysa borgara sína úr snörunni“, skrifaði Wall Street Journal í leiðara á dögunum. „Bresk eða hollensk yfirvöld myndu aldrei taka á sig kröfur erlendra innistæðueigenda upp á þriðjung af landsframleiðslu ef einn af stóru bönkunum þeirra færi á hausinn“, skrifaði Financial Times. Við skulum hlusta á það sem þessi virtustu viðskiptablöð heims skrifa milljónum lesenda sinna. Við getum með góðri samvisku sagt nei á laugardaginn og borið höfuðuð hátt gagnvart hverjum sem er; Bretum, Hollendingum, sjálfum okkur og ekki síst komandi íslenskum kynslóðum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.