Það skiptir máli hverjir stjórna

Nú fara í hönd sveitarstjórnarkosningar eftir tæpa viku. Víðsvegar um landið eru framboðslistar að kynna sín kosningamál og áherslur fyrir næstu fjögur ár. Í því samhengi er nauðsynlegt að huga að því að meta fyrir hvað þessi framboð standa, hver eru þeirra gildi og sýn á samfélagið sitt. Á hverju byggja stefnuskrár framboðanna sem liggja til grundvallar þeirra framtíðarsýn á sitt samfélag.

Ég hvet fólk til að kynna sér framboðin í sínum sveitarfélögum og velta því fyrir sér hverjum það treystir til að fara með stjórn mála í sínu nærumhverfi. Þar skiptir ekki máli hvort um sé að ræða ákveðinn flokk eða framboð sem byggir á krafti íbúanna sjálfra og vilja láta rödd sína heyrast heldur þau gildi sem þau standa fyrir.

Félagshyggja stendur fyrir raunverulegum gildum eins og náungakærleik, umhyggju og velferð fyrir alla. Jöfn tækifæri og jafn réttur fólks innan samfélagsins er einn af hornsteinum þess þjóðfélags sem við lifum öll saman í. Öflugt lýðræði og opin stjórnsýsla þar sem íbúar hafa aðkomu að málefnum síns samfélags skiptir okkur öll máli.

Í komandi sveitarstjórnarkosningum fær hvert og eitt okkar tækifæri til að hafa áhrif á okkar nærumhverfi næstu fjögur ár. Það skiptir máli að í sveitarstjórnum sé fólk sem aðhyllist jafnaðarstefnu og félagshyggju. Fólk sem þekkir sín gildi um frelsi, jafnrétti og bræðralag og vill vinna með samborgurum sínum til að vinna að þessum gildum í samfélaginu.

Ég bið þig því að skoða stefnuskrár framboðanna í þínu sveitarfélagi og fyrir hvaða gildi þau standa. Framboð í anda jafnaðarstefnu og félagshyggju standa þér til boða til að vinna að málum í þína þágu næstu fjögur ár.

Það skiptir máli hverjir stjórna. Nýttu atkvæðisrétt þinn á kjördag.

Ólafur Ingi Guðmundsson 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir