Það var allt til á háaloftinu hjá mömmu - Áskorendapenni Þórhalla Guðbjartsdóttir Blönduósi

Foreldrar mínir fluttu á Blönduós, nánar tiltekið á Húnabraut 34, sumarið 1965. Þá var ég níu mánaða gömul. Við áttum engar ættir að rekja til Húnavatnssýslna og enga nákomna ættingja þar en okkur var vel tekið og eignuðumst við fljótt stóra „fjölskyldu“ sem voru nágrannar okkar við Húnabrautina.

Í þá daga átti setningin „ef það fæst ekki í Kaupfélaginu þá þarftu ekki á því að halda“ vel við og flest verslað í Kaupfélaginu eða Versluninni Vísi. Það var ekki verið að skreppa til Reykjavíkur eða Akureyrar ef eitthvað vantaði. Það var því ekki verra að vera nýtinn og eiga smá lager af hinu og þessu sem þurfti til heimilisins. Þetta hvoru tveggja átti vel við móður mína. Hún saumaði flest allt sjálf bæði flíkur og annað og hún endurnýtti allt sem hægt var að endurnýta og var mjög hugmyndarík í þeim málum. Það var fáu hent og til varð gott safn nytjahluta á háaloftinu.

Það kom fyrir að þessi nýtni færi svolítið í pirrurnar á okkur systrunum og að okkur þætti endurnýtingin hallærisleg. Mamma átti t.d. alltaf heimasaumaða innkaupapoka og margnotaði líka alla poka sem inn komu á heimilið sem þótti ekki sérlega smart þá og okkur langaði nú stundum í keypt föt þó svo heimasaumuðu fötin hafi verið samkvæmt nýjustu tísku. En háaloftið var mjög vinsælt og mikið verið að fá lánað eða gefins. Það vantaði hitt og þetta fyrir leikfélagið og það vantaði ýmislegt fyrir Sumarskemmtun skólans og árshátíðir og reyndist háaloftið þá ansi notadrjúgt. Það var líka vinsælt að finna sér furðuföt og föt í stoppleik upp á lofti (ekki verra að finna gömul sundföt og brjóstahaldara af vel stórum og brjóstgóðum). Mamma fékk oft að heyra „mamma heldur þú að það sé til ……. upp á lofti?“ og svarið var oftast já.

Alltaf var hægt að finna eitthvað handa ungum börnum bæði föt og leikföng. Þá var ekki í boði að komast í Rauða krossinn og engar endursöluvefsíður til. Þannig að allt sem hægt var að nota og einhver kæmi hugsanlega til með að geta nýtt síðar fékk sinn stað uppi á háalofti.

Dóttir mín var í himnaríki uppi á háalofti. Allt frá því hún var í eldri bekkjum grunnskóla var hún mikið fyrir að vera í gömlum/notuðum fötum og fór hún í gegnum mörg tískutímabil af háaloftinu. Ég held reyndar að þetta háalofts- þema erfist því þegar foreldrar mínir dóu árið 2015 færðist sumt (maðurinn minn segði MIKIÐ) af háalofti móður minnar yfir á háaloftið mitt. Það ár sannaðist afbakaði málshátturinn „enginn veit hvað átt hefur fyrr en flutt hefur“ því á Húnabraut 34 beið ýmislegt eftir því að verða mögulega nýtt síðar ef ske kynni að einhver hefði einhvern tímann hugsanlega not fyrir það.

En þar sem háaloft erfast lagði góð vinkona mín til að við (hún var búin að fara í gegnum svipað og ég þó hún sé ekki með þetta „háalofts“ gen) færum reglulega í gegnum okkar geymslur og háaloft og tækjum til og grynnkuðum á dóti og gerðum það sem fyrst á meðan tæming æskuheimilanna okkar væru enn í fersku minni. Nú hefðum við enga afsökun, hér er söfnunarstöð Rauða krossins og fjölmargir endurnýtingarmöguleikar á vefnum þannig að hægt er að koma gersemunum strax í nýjar hendur. Það verður fróðlegt að sjá hvernig mér gengur með háaloftið í framtíðinni.

Ég ætla að skora á góða vinkonu, samstarfskonu til margra ára og fyrrum nemanda minn hana Magdalenu Berglindi Björnsdóttur um að koma með næsta pistil.

Áður birst í 19. tbl. Feykis 2021.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir