Þakkir
Ég vil þakka þeim fjölmörgu er tóku þátt í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi en nálægt 1600 manns röðuðu frambjóðendum í sæti. Listinn er sterkur þar sem fólk með ólíkan bakgrunn mun vinna saman að verkefnum framtíðarinnar.
Það er vissulega verk að vinna og til þess þarf fólk með stefnu og markmið sem líkleg eru til að skila árangri. Framsóknarflokkurinn er miðjuflokkur sem hefur haft forgöngu um endurnýjun í íslenskum stjórnmálum án þess þó að fórna þeim grunni og gildum sem stefnana byggir á.
Við erum frjálslyndur, samvinnu og félagshyggjuflokkur sem hafnar öfgum til hægri eða vinstri.
Frambjóðendur Framsóknarflokksins ætla að tala í lausnum sem líklegar eru til að stuðla að uppbyggingu atvinnu- og mannlífs í kjördæminu og landinu öllu.
Vinna – vöxtur- velferð eru sígild orð um stefnu Framsóknarflokksins til fjölda ára. Við leggjum áherslu á atvinnu sem skapar vöxt og velferð fyrir fólkið. Því höfum við einir flokka lagt fram tillögur að lausnum á efnahagsvanda þjóðarinnar. Tillögur þessar eru í 18 liðum en af þeim hefur mest verið rætt um sk. 20% leið.
Sumir kalla þetta niðurfellingu skulda en aðrir tala um leiðréttingu á verðbótum. Leiðrétting er frekar lýsandi fyrir hugmyndina. Stóra myndin er sú að ná samkomulagi við erlenda kröfuhafa um að hluti þess taps sem þeir hafa nú þegar reiknað með gangi til þeirra sem skulda. Reyndar hefur ríkisvaldið einhliða ákveðið að lækka mögulegar kröfur erlendu aðilana með því að færa helming af þeim yfir í nýju bankana en skilja hinn helminginn eftir í gömlu bönkunum.
Okkar krafa er að sú hækkun sem varð á einu ári gangi til baka til þeirra sem skulda. Þannig verði fleiri heimilum og fyrirtækjum bjargað og fleiri geta þá fengið atvinnu og staðið í skilum.
Frambjóðendur flokksins í NV-kjördæmi gera sér grein fyrir mikilvægi atvinnuveganna, ekki síst landbúanaðar og sjávarútvegs, ásamt því að bæta þarf aðgang að menntun, bæta samgöngur og aðgang að háhraðaneti, standa vörð um heilbrigðisstofnanir ofl.
Að þessu og fleiru viljum við vinna í samvinnu og samráði við íbúa kjördæmisins. Við bjóðum fram krafta okkar til að vinna, ekki til að lofa.
Að lokum ítreka ég þakkir til þeirra fjölmörgu sem þátt tóku í prófkjörinu og tryggðu þannig öflugt fólk í framboð fyrir kjördæmið.
Gunnar Bragi Sveinsson. Höfundur skipar 1. Sæti á lista Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.