Til hvers öflugan tónlistarskóla?

Tónlist og kórsöngur hefur löngum verið stór partur af menningarlegri sjálfsmynd Skagfirðingsins. Öll viljum við að menningarlífið blómstri, en hvernig? Mikilvægi tónlistarinnar er einstakt og ekkert sem kemur í hennar stað. Til þess að svo megi verða áfram þurfum við öflugan tónlistarskóla þar sem fjölbreytt námsval stendur til boða.

Í erindi Helgu Rutar Guðmundsdóttur, prófessors í tónlistarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem haldið var nýlega í Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal, kom berlega í ljós hversu áhrif tónlistarnáms eru mikilvæg. Þar kom fram að miklar framfarir hafa orðið á sviði heila- og taugarannsókna og margar nýjar rannsóknir hafa komið fram á síðustu árum. Í stuttu máli hefur tónlistarnám jákvæð og langvarandi áhrif á heilastarfsemi en áhrifin koma strax fram og endast alla ævi. Söng- og hrynþjálfun eykur hæfni heilans til að heyra og greina tóna og málhljóð sem hjálpar börnum við máltöku og lestrarþjálfun. Sérstaka athygli hefur vakið í rannsóknunum að tónlistariðkun barna er öflugt jöfnunartæki en rannsókn meðal 5 ára barna sem áttu undir högg að sækja félags- og efnalega sýndi að börnin efldust við reglulega tónlistarlega þjálfun.

Mælanlegar breytingar urðu hlutfallslega mestar hjá þessum hópi á greindarprófum. Samsöngur 2x30mín. á viku nægði. Eins mátti greina að tónlistariðkun barna eykur hjálpsemi og minnkar árásarhneigð. Að hlusta á tónlist hefur skammvinn jákvæð áhrif, en tónlistariðkun breytir heilanum varanlega. Fyrir einstaklinginn getur tónlistarnám eflt sjálfsmynd, sjálfstraust, þekkingu og færni. Tónlistarmenntun eykur því ekki aðeins færni í hljóðfæraleik eða söng. Tónlistarmenntun er samkvæmt þessum rannsóknum mikilvæg fyrir bæði einstaklinginn og samfélagið og tónlistin hefur eitthvað sérstakt umfram aðrar listgreinar. Miðað við fjölda rannsókna á áhrifum tónlistarnáms, er samfélagslega hagkvæmt að stuðla sérstaklega að útbreiddri tónlistarmenntun fyrir okkur öll.

Ræktum tónlistina

Það er afar mikilvægt að rækta starf tónlistarskólans og hlúa að starfsumhverfi hans til þess að sem flest börn og fullorðnir njóti þess ávinnings sem rannsóknir sýna fram á að tónlistarnám og iðkun gefur.

Tónlistarskóli Skagafjarðar hefur því miður verið olnbogabarn síðustu 8 ára, sífellt verið að skera niður fjármagn og fækka stöðugildum. Kennurum og nemendum komið fyrir í óviðunandi vinnuaðstæðum en eiga samt að vera flaggskip skagfirskrar tónlistarmenntunar á tyllidögum. Þó svo að tónlistarskóli sé ekki lögbundin þjónusta sveitarfélaga þá hefur samfélagið tekið þá ákvörðun að tónlistarskóli og tónlistarnám sé nauðsynleg þjónusta. Okkur foreldrum finnst sjálfsagt að börn okkar hafi val um það að læra á hljóðfæri og val um það hvort þau eru í heilu eða hálfu námi óháð aldri, en það verður ekki sjálfsagt ef við missum frá okkur fagfólkið.

Fagþekking er dýrmæt og að henni verður að hlúa annars mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir uppeldi barnanna okkar og samfélagið. Stuðningur og hvati kjörinna fulltrúa sveitarfélagsins þarf að aukast og viðhorf að breytast. Starfsstöð tónlistarskólans í Árskóla er bráðabirgðaaðstaða og hefur verið það síðan 2016, sem ekki er hvetjandi hvorki fyrir nemendur né kennara. Það gengur tæplega til lengdar. Við verðum að auka fjármagn í rekstur tónlistarskólans og stuðla þannig að fjölbreyttu tónlistarnámi, endurvekja söngdeildina, lúðrasveitina, efla strengjasveit og starfrækja barnakóra og fullorðins kóra.

Meðleikari söng- strengja- og blástursdeildar gæti t.d. tekið að sér meðleik hjá kórum og kórarnir eflast eftir því sem fleiri tileinka sér söngtækni. Eins mætti hugsa sér aukið samstarf milli tónlistar- og grunnskóla, hópkennslu, þar sem börnum gefst kostur á að kynnast mörgum hljóðfærahópum og spila saman. Tækifærin gætu verið endalaus.

Að lokum langar okkur að vitna í Helgu Rut með ósk um að Skagafirðingar geti verið stoltir af framboði til tónlistarnáms.

„Tónlist er oft skilgreind sem reglubundin hljóð sem eru oftast búin til af fólki í ákveðnu samfélagslegu samhengi. En taktbundin hljóð í náttúrunni geta einnig hljómað í okkar eyrum sem tónlist,“ segir Helga Rut. „Oftast er tónlist eitthvað sem er tengt tilteknum hefðum eða venjum og er gjarnan mjög félagslegt fyrirbrigði. Tónlist auðgar mannlega tilveru á margfalt fleiri vegu en við gerum okkur í fljótu bragði grein fyrir.”

https://www.frettabladid.is/lifid/dularfullur-kraftur-tonlistar/

Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, skipar 2. sæti VG og óháðra
Helga Rós Indriðadóttir skipar 16. sæti á lista Vg og óháðra
til sveitarstjórnarkosninganna þann 14. maí nk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir