Torskilin bæjarnöfn - Botnastaðir í Svartárdal

Mynd 17, horft yfir túnið á Botnastöðum, hvítahúsið næst á myndinni er Bólstaður, fjárhús eru þar fyrir ofan og félagsheimilið Húnaver lengra til hægri og Bólstaðarhlíð í fjarska þar á milli. Mynd: Byggðasafn Skagfirðinga.
Mynd 17, horft yfir túnið á Botnastöðum, hvítahúsið næst á myndinni er Bólstaður, fjárhús eru þar fyrir ofan og félagsheimilið Húnaver lengra til hægri og Bólstaðarhlíð í fjarska þar á milli. Mynd: Byggðasafn Skagfirðinga.

Þess er getið til í Safni t. s. Ísl. IV., að rjetta nafnið sje Botta- og það sje stytting úr Bótólfsnafni. Tilgáta þessi hefir verið tekin upp í Árbók Fornl.fjel. 1923, sem sennileg, og gefur það mjer ástæðu til að taka þetta nafn með nú. Nafnið er þannig ritað í elztu skjölum: Auðunarbók (frá 1318) Botta-; Auðunarmáldagi er endurritaður 1360 - Jónsmáldagi - og þá er ritað Botna-. 1394 er máldagabókin ennþá afrituð og aukin og þá er einnig ritað Botna- (DI. II. 472, DI. III. 158, DI. III. 545). Í kaupbrjefi frá 1528: Botnastaðir (DI. IX. 454); Á. M. (um 1700): Botta, en bætir við þeirri athugasemd, að alment sje kallað Botna-. J. B. 1696: Botna- og Ný. Jb. báðar Botna-.

Í manntalsbókum Húnavatnssýslu kemur Botta- einu sinni fyrir, en í öllum öðrum ritum Botnastaðir. Og því nafni er bærinn nefndur nú af öllum, og elztu menn muna ekki annað nafn á bænum. Næst er þá að íhuga hvert hald sje í máldagabók Auðunar biskups, sem sönnunargagni. Fyrst er það þá, að frumrit allra hinna fornu máldagabóka eru glötuð nema Ólafsmáldagi (DI, II. bls. 424).

Árið 1639 lætur Þorlákur Skúlason biskup afskrifa áðurnefnda máldaga. Og 1645 lætur hann rita þá upp í annað sinn. Þessar afskriftir geta því ekki talist eldri heimildir en frá l639. Líklega hefir sami maður afritað allar máldagabækurnar, og þess vegna er það eftirtektavert, að hann ritar Botna- í tveim stöðum af þremur (Jóns og Pjeturs). Nú er það vitanlegt, að misritun er afarvíða í þessum afskriftum, t. d. í Auðunarbók má benda á þennan stafrugling í nöfnum: Birnsstaðir fyrir Birnu-, Sevinastaðir f. Sæunnar-, Múka-þverá f. Múnka-, Skuutustaðir f. Skútu-, Bardalstunga f. Kárdals-, Sýlffraslaðir f. Silfra- o.s.frv. Það eru því sennilegar líkur fyrir því, að Botta- í Auðunarbók sje stafvilla ritarans, (eins og t.d. Svínvettingar fyrir Svínvetningar, auðvitað ritvilla DI. II. 250), en rjett í hinum tveim máldögunum, sem eiga jafngamla afskrift.

Frá þessari afskrift stafar víst Botta- hjá Á. M., því hann tekur það beint fram, að alment sje sagt Botnastaðir. Kaupbrjefið trá 1528 verður hjer þyngst á metunum, því frumbrjef þess er til í Árnasafni, og afskriftir Árna þykja framúrskarandi nákvæmar. Þetta er því elzta ábyggilega heimildin og þar er ritað Botnastaðir, eins og áður er sagt. Því má bæta við, að orðið „botti“  finst hvergi á íslenzku máli og það er ímyndun ein að það sje stytting úr Bótólfur. Mín ályktun er sú, að Botnastaðir sje rjetta nafnið, og þetta er með þeim fáu bæjanöfnum, er enda á -staðir, sem ekki eru kend við menn eða konur.

Og skýring á Botnastaðanafni fæst þar í sjálfu heimalandinu. Alldjúp skálmynduð jarðföll eru í fjallið fyrir ofan Botnastaði. Heita þau Húsabotn og Bæjarbotn, en venjulegast nefndir Botnar. Í Botnunum spretta upp lækir, sem grafið hafa gil niður hlíðina. Kemur bæjarlækurinn úr Bæjarbotni.

Það er alkunna að botn í þessari merkingu er eldra en Íslands bygð. (Norska orðið „bott“ þýðir botn og einnig mállýzkan „bonn“). Og hvað var eðlilegra en að kenna bæinn við „Botnana“, sem voru einkennilegir mjög fyrir landslagið á þessum slóðum.

Finst mjer ástæðulítið, að hrófla framar við þessu nafni og óviðfeldið, að taka óskiljanlegt nafn, sprottið af misritun, fyrir vel skiljanlegt nafn í alla staði.

-       / Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

 

Áður birst í 39. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir