Torskilin bæjarnöfn - Bústaðir í Lýtingsstaðahreppi

Bústaðir. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar.
Bústaðir. Mynd: Byggðasaga Skagafjarðar.

Bústaðir hafa að líkindum heitið Bútsstaðir, því að þannig er nafnið ritað í Sigurðarregistri árið 1525 (Dipl, Isl. lX,, bls. 302). Merkilegt er, að þá eru ýmsar jarðir í eyði, sem nú eru taldar með kostajörðum, t.d. Húsey, Bútsstaðír, Skatastaðir o.fl. Nú er bærinn ætíð nefndur Bústaðir og jarðabækurnar hafa það eins (Johnsens Jarðatal, bls. 261. Sjá Safn lV. b., bls. 439).

Ekki hefi jeg getað fundið eldri heimildir fyrir nafninu og má þó telja víst, að nafnið sje gamalt. Dr. Finnur Jónsson hefir bent á, að Bústaðir í Gullbringusýslu hafi upphaflega heitið Bútsstaðir, samkvæmt rithætti í Biskupasögum I. b. Líklegast er því, að báðir bæirnir sjeu kendir við mannsnafnið Bútur, því að langflest bæjaheiti, er enda á -staðir, eru af mannsnafni dregin, eða auknefni þeirra. Sturlunga getur um Bút Þórðarson, heimamann Órækju, svo að nafnið hefir þekst á Sturlungaöld (Sturlunga II. b., bls. 219 og víðar).

Það er auðskilið, að þegar nafnið Bútur gleymdist, breyttist heitið í Bústaði, því að t hlaut að falla burt í framburði. Rjetta nafnið mun því vera Bútsstaðir og ætti að rita það þannig.

- Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 44. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir