Torskilin bæjarnöfn - Djúpidalur í Blönduhlíð

Mynd: Djúpidalur 17. júlí 2007. Sér inn á hlíðar Akradals þar sem fjallið Fagrahlíð lokar sýn. Svartaskál og niður úr henni gengur Svörtuskálargil. Grjótárgil og Grjótárdalur ganga til hægri inn í Akrafjallið. Þar byrjar Akradalur og Selhnjúkinn ber við loft vinstra megin gilsins. Mynd og myndatexti: Byggðasaga Skagafjarðar 4. bindi bl. 200.
Mynd: Djúpidalur 17. júlí 2007. Sér inn á hlíðar Akradals þar sem fjallið Fagrahlíð lokar sýn. Svartaskál og niður úr henni gengur Svörtuskálargil. Grjótárgil og Grjótárdalur ganga til hægri inn í Akrafjallið. Þar byrjar Akradalur og Selhnjúkinn ber við loft vinstra megin gilsins. Mynd og myndatexti: Byggðasaga Skagafjarðar 4. bindi bl. 200.

Djúpidalur í Blönduhlíð hefir án efa heitið Djúpárdalur til forna. „Þórir dúfunef nam land á milli Glóðafeykisár og Djúpár,“ segir í Landnámu (Landnáma, bls. 143). Dalurinn hefir svo verið kendur við ána og kallaður Djúpárdalur. Af dalnum hefir bærinn dregið nafn. En snemma hefir Djúpadalsnafnið myndast; þannig t.d. í Sigurðarregistri 1525 (dipl. Ísl. IX. b., bls. 301).

Á hinn bóginn ritar A. M. Djúpárdal í Jarðabók sinni, auðvitað samkvæmt uppruna (sbr. Safn t. s. Ísl., bls. 521 í lV. b.), en bætir þó við: alment Djúpi-. Áin er nú kölluð Djúpadalsá eða „Dalsá“ og forna nafnið Djúpá er flestum gleymt. Nafnið hefir átt vel við, því að farvegurinn er víða djúpur milli kletta. Mjer þykir líklegt að bæjarnafnið hafi breyzt, þegar hætt var að kalla ána Djúpá, en Dalsá varð algengt, en forliðurinn djúp- hefir geymst í bæjarheitinu og r auðvitað fallið niður í framburði og orðið Djúpadalur, enda er það framborið af mörgum þannig enn í dag. Af þessu myndaðist svo nefnif. Djúpidalur (sbr. Ný jarðabók, bls. 104 og Johnsens Jarðatal, bls.- 266), því að mönnum þótti það skiljanlegt, þegar dalurinn einmitt er djúpur. 
Upprunalega nafnið er því Djúpárdalur og öðruvísi ekki rjett ritað.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 2. tbl Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir