Torskilin bæjarnöfn - Kollufoss í Miðfirði

Kollafoss eða Kollufoss. Mynd: kollafoss.farm.
Kollafoss eða Kollufoss. Mynd: kollafoss.farm.

Elztu heimildir eru þessar: 
Í Auðunarbók 1318 og Jónsmáldaga 1360, Kollufoss. Pjetursmáldaga 1394 Kotlufoss. Víðidalstungumáldaga Kollufoss (DI. II. 483, DI. III. 164, 540 og 595), einnig 1394, og úr því ávalt Kollufoss, m. a. Jb. 1696, Á. M. Jarðabók 1703 o.s.frv. Þess ber vel að gæta, að frumritin að máldagabókum biskupanna eru öll glötuð. Elzta afskriftin af þeim öllum er frá árinu 1639, gerð samkvæmt ákvörðun Þorláks biskups Skúlasonar á Hólum. Og 1645 ljet hann taka aðra afskrift af máldögunum.

Það getur tæplega leikið vafi á því, að bæjarnafnið hefir misritast hjá afritaranum í Pjetursmáldaga, þegar öllum hinum afskriftunum frá sama ári ber saman, langtrúlegast að sami maður hafi afritað þá alla. (Sjá um Botnastaði hjer framar.) Víðidalstungumáldaga afritaði Páll Vídalín 1699 og má geta nærri, að hann hefði ritað Kotlufoss, ef það hefði tíðkast á 17. öld, því hann var alinn upp í næstu sveit.

Bærinn er ávalt nefndur Kollufoss og enginn þekkir annað nafn á honum þar um slóðir. En þessi eini staður (Pétursmáldagi) hefir ruglað svo nafnaskýrendur, að sumir setja Kötlufoss sem aðalnafn, sem er svo herfilegur misskilningur (Árbók Fornleifafjelagsins 1923, bls. 58). Ætti ekki framar að láta bersýnilega stafvillu hnekkja Kollufossnafninu, sem er hið eina rjetta. Kolla- í Ný J.b. er afbökun.

Hvernig bærinn fjekk nafnið, er gagnslítið að giska á. Sennilegt er að fossinn hafi verið nefndur þetta öndverðlega (eftir kollóttri á, sem farist hefir í fossinum?) og bærinn svo verið samnefndur þegar stundir liðu.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

 

Áður birst í 10. tbl. Feykis 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir