Torskilin bæjarnöfn - Sneis í Laxdádal

Bærinn Sneis í Laxárdal fremri var staðsettur þar sem örin bendir. Mynd tekin af korti Landmælinga Íslands.
Bærinn Sneis í Laxárdal fremri var staðsettur þar sem örin bendir. Mynd tekin af korti Landmælinga Íslands.

Allar heimildir, eldri og yngri, hafa nafnið óbreytt með öllu: Sneis (sjá m.a. DI. III., bls.448, frumskrift á skinni, gerð 1470, en brjefið er frá árinu 1390. Jarðabækur allar: Sneis) og ná þær frá árinu 1390. Samnefni eru engin til svo jeg viti, að undanteknu örnefninu Sneisargil í Dalasýslu (DI. III. 729. Gamalt landamerki fyrir Sælingsdalstungu).

Nokkrar tilgátur hafa komið fram um nafnið, þar á meðal, að bærinn hafi heitið Snös og styðja það við toppmyndaðan hnjúk, sem er austan við bæinn. Snös er ungur tilbúningur, en þarna verður samt að leita ráðningar á nafninu, þótt með öðrum hætti sje. Orðið sneis er fornt og fágætt orð, og er þetta bæjarnafn því eitt hinna merkustu, sem geymt hafa fornalgeng orð. Orðið kemur meðal annars fyrir í vísu, eftir Ívar skáld Ingimundarson (í kvæði um Sigurð slembidjákn):

Klökkar urðu
enn konungr stýrði
snekkju sneisar
of Sigurði.1)

„Snekkja sneisar“, munu tákna hjer rár eða stengur (ef til vill, „brandana“, þó er það ekki víst, sbr. Lex. Poet. bls. 521). Í fornu alþýðumáli táknar það svipað: stöng, pinna eða tinda. Eins og kunnugt er, voru notaðir yddir trjetindar fyrir blóðmörskeppi fyrrum. Þeir kölluðust sneisar (af því er talshátturinn að e-ð sje sneisafult, sem var upphaflega sagt um keppinn). „Sneis“ er enn til í norsku en hefir allbreytilega merkingu (sjá Torp bls. 668), m. a. stöng, ydda trjepinna (tinda) eins og í íslenzku. Einnig (t.d. í Helgeland) járnbrodd (í stöng) o.s.frv. og rótskylt engils. snæs eða snás kvk., er þýðir stöng. Víða þýðir sneis stöng, sem hey- eða korn-bindi eru bundin á, t.d. í Noregi og Svíþjóð (sæ. snäis og snes) (af þessu er danskan Snes=20 [eiginlega úr sænsku þ.e. 20 kornbindi]). Algengasta merking þessa orðs er því stöng og tindur (trjetindur) og sú merking hefir verið algengust í íslenzku.

Þá ber þess að geta, að áðurnefndur hnjúkur er hár og toppmyndaður, og efst á honum er strompmyndaður klettur eða bjargtindur, sem kallast Strympa. Telja má líklegt að orðið tindur hafi runnið í hug þeim sem bygði þarna fyrstur, er hann horfði á tindinn, því það orð var þaulnotað í fornmáli og tíðkaðist í örnöfnum: Tindaskörð, Tindahraun, Tindastóll (áður Eilífsfjall), sbr. og orð sem fjallstindur, bjargtindur o.s.frv. Manninum hefir því þótt vel til fundið, að kenna bæinn við tindinn, en þá hafa Tindar á Ásum líklega verið bygðir, og hann hefir ekki viljað hafa samnefni við bæ í næstu sveit. Þá dettur þetta snjallræði í hugann: Bærinn skal heita Sneis, það þýðir líka tind- í annari merkingu að vísu, en getur verið smellinn orðaleikur. Vitanlega verður ekki fullyrt um þetta, en svona þykir mjer nafnið vel skiljanlegt.

Orðatiltækið að „sneisa mör“, þ.e. að loka blóðmörskeppnum með sneisinni var algengt á fyrri öldum (sjá m.a. Bisk.sögur I. bls. 568). „Sneis á hjalti“ getur hafa þýtt naglann í fremra- eða „eftra-„ hjalt og gæti Ögmundur Sneis hafa fengið auknefnið af því einhvernveginn.

1) Fiörutíu ísl. þættir, bls. 182.

Rannsóknir og leiðréttingar Margeirs Jónssonar

Áður birst í 10. tbl.  Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir