Um útskurð og Stefán askasmið - Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

BSk 1995-119. Smjöraskja úr furu. Öskjunni fylgdu þær upplýsingar að hana hafi gert Stefán askasmiður. Askjan var gefin af Steingrími Friðrikssyni (1906-1997), en hann keypti hana á uppboði um 1953 af Vigfúsi Magnússyni, bátasmiði frá Selnesi.
BSk 1995-119. Smjöraskja úr furu. Öskjunni fylgdu þær upplýsingar að hana hafi gert Stefán askasmiður. Askjan var gefin af Steingrími Friðrikssyni (1906-1997), en hann keypti hana á uppboði um 1953 af Vigfúsi Magnússyni, bátasmiði frá Selnesi.

Segja má að einfaldleiki hafi oft einkennt híbýli fyrri alda hérlendis. Helstu byggingarefni húsa voru torf, grjót og timbur, baðstofur voru timburklæddar á betri heimilum en síður á þeim fátækari. Veggir voru ekki málaðir nema á bestu bæjum lengi vel, en víðar voru til máluð húsgögn.

Sumir voru svo heppnir að eiga listavel málaða kistla eða kistur með alls kyns blómamynstrum, letri og flúri. Sú listgrein og iðn sem nær hvað lengst aftur til fortíðar hefur þó að gera með timbur, en útskurður hefur verið stundaður í árþúsundir. Útskornir hlutir voru meðal þeirra listagripa sem prýddu heimilin hvað mest fyrrum daga.

Alls kyns hlutir voru skornir út, ýmist með mynstrum, blómasveigum, stafletri (s.s. höfðaletri) eða ártölum, og stundum allt í senn. Þetta átti bæði við um nytjahluti líkt og smjöröskjur, rúmfjalir og aska sem voru til á flestum heimilum, og sum húsgögn, s.s. stóla og skápa. Mest var smíðað úr rekaviði, sem samanstóð að stórum hluta af furu- og grenitegundum. Skurðhagir menn voru víða á landinu allt fram til aldamóta 1900, en sérstaklega voru ýmsir nafnkunnir útskurðarmeistarar frá þeim svæðum þar sem ofgnótt var af rekaviði, s.s. á Hornströndum, Ströndum og Skaga.

BSk-168. Askur úr furu. Á mitt lokið er skorin tólfblaðarós, utan um hana er hringamynstur og ýmiskonar mynstur með fleygskurði. Á loktotunni er ártalið 1857. Oft eru líkindi í mynstri á öskum sem eignaðir eru Stefáni askasmið og hann virðist hafa tileinkað sér ákveðinn stíll eins og aðrir listamenn. Askurinn kom frá Árna Sveinssyni (1892-1965), bónda á Kálfsstöðum.

Einn af okkar fremstu útskurðarmönnum í Skagafirði hét Stefán Jónsson, kallaður askasmiður. Um hann er frekar lítið vitað, en hann er sagður fæddur að Selá í Skefilsstaðahreppi á Skaga 2. desember 1832. Foreldrar hans voru Anna Jónsdóttir og Jón Sigurðsson.

BSk 2019:13. Askur gefinn Byggðasafni Skagfirðinga af sr. Árna Sigurðssyni (f. 1927). Árni keypti hann á uppboði en askinn áttu áður hjónin Jón Björnsson (1874-1959) og Guðrún Guðmundsdóttir (1878-1959) sem bjuggu þá á Bakka í Viðvíkursveit. Mynstrið í lokinu bendir til handverks Stefáns askasmiðs á Mallandi.

Stefán var sennilega vinnumaður á Selá á árunum 1850-1853, en síðar að Syðra-Mallandi á austanverðum Skaganum þar sem hann dvaldist til æviloka, ásamt eiginkonu sinni, Ragnhildi Gottskálksdóttur.[1] Stefán og Ragnhildur eignuðust átta börn, en sex af þeim dóu í frumbernsku. Hjónin bjuggu við mikla fátækt á Mallandi, harðæri og skepnufellir varð víða á sjöunda áratug aldarinnar og harðbýlt var á Skaganum sem og víðar.[2] Stefán lést þann 27. desember 1868, þá aðeins 36 ára.[3] Stefáni var lýst sem fátækum greindarmanni, listrænum og hugkvæmum á sviði smíða og útskurðar. Sjálfsagt hefur hann sinnt útskurði sem hliðargrein við búskapinn og sala askanna sennilega verið nokkur búdrýgindi.[4]

Eftir Stefán liggja nokkur fjöldi aska, einn kistill (svo vitað sé) og smjöraskja. Útskurður hans þykir fyrirtak, blæbrigðaríkur og nákvæmur. Hjá Byggðasafni Skagfirðinga eru fjórir askar sem honum eru eignaðir ásamt smjöröskju og smjörkúpu (sem er rennd og óútskorin).

/Inga Katrín D. Magnúsdóttir

[1] Þór Magnússon. „Askar Stefáns á Mallandi“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 65. Árg. (1968). Bls. 39-44.
[2] Nánar má lesa um Stefán og lífshlaup hans í kafla Hannesar Péturssonar í bókinni Frá Ketubjörgum til Klaustra.
[3] Hannes Pétursson. „Ævi og kjör askasmiðs“. Frá Ketubjörgum til Klaustra. (1990). Útg. Sögufélag Skagfirðinga. Sauðárkróki. Bls 226-251.
[4] Þór Magnússon. „Askar Stefáns á Mallandi“. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 65. Árg. (1968). Bls. 39-44.

Áður birst í 8. tbl.  Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir