Unga fólkið til varnar jörðinni - Áskorendapenninn Marín Guðrún Hrafnsdóttir frá Skeggsstöðum í Svartárdal

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort unga fólkið sem nær sér ekki í upplýsingar með sama hætti og við, og skilur ekki þessa þörf að hlusta á fréttir á tilteknum tíma dags, sé samt sem áður ekki mun upplýstara og meðvitaðra en við hin sem eldri erum. Ungt fólk mótmælir nú aðgerðarleysi í umhverfismálum og einungis tímaspursmál hvenær slíkt gerist á Íslandi.

Ef þeim tekst að virkja fjöldann þá verður máttur þeirra miklu meiri en allir heimsins Parísarsáttmálar og kolefnisjöfnunaráætlanir. Þetta unga fólk með spjöld og háreysti getur fengið okkur til að snúa við þótt beygjan verði alltaf krappari og krappari.

Hugmyndafræði minnar kynslóðar hefur því miður verið að allt sem er stærra, meira og nýrra sé keppikefli í sjálfu sér og enn er svokölluð heimslosun að aukast, þrátt fyrir endalausar viðvaranir. Hvað þarf til þess að við treystum okkur til að breyta lifnaðarháttum okkar? Er til nægilega öflug fyrirstaða til að skutla á milli markaðs-tannhjólanna?

Nú streyma námsmenn út á göturnar, þeir sjá ekki tilgang í að mæta í skóla þegar það er verk að vinna. Við sem erum alin upp í sveit ættum að skilja þetta, heyið mátti ekki spillast og allir tóku þátt. Nú er það aðgerðarleysi og doði sem ógnar. Jú, jú, við erum alveg  til í að flokka rusl, nota minna af plasti og margir hafa minnkað kjötneyslu - en  oft er þetta þó meira til friðþægingar. Við greiðum hróðug nokkrar krónur til að kolefnisjafna rétt áður en við stígum upp í flugvélina og skolum samviskusamlega jógúrtdósina, en unga fólkið krefst aðgerða! Það mótmælir í þeim göfuga tilgangi að bjarga heiminum. Þau eru byrjuð að hrópa á gestgjafana að partýið sé komið úr böndunum og nauðsynlegt sé að bjarga því sem bjargað verður. Þau hafa áhyggjur af Amazonskóginum og að forseti Brasilíu ætli að hætta að vernda þennan magnaða skóg, hætta að hlúa að lungum jarðar, þaðan sem heimurinn fær um 20% af öllu súrefni sínu.

Þótt þetta virðist stundum vonlaust þá er unga fólkið komið út á göturnar í Brussel, Berlín og víðar og ég held að ef það hefur orkuna til að snúa partýið niður þá sé von. Við sem ólumst upp við kalt stríð þekkjum vel viðvarandi ógn sem blasti við í heimsfréttunum en samt held ég að unga kynslóðin í dag sé að upplifa mun verri tíma hvað þann þátt varðar. Við gátum lítil áhrif haft en þau skynja að þau verða að bregðast við. Í krafti samfélagsmiðla, nýrrar tækni og sjálfsbjargarviðleitni vil ég trúa að það takist.

Við erum í miðju stökki. Breytingar eða byltingar koma alltaf í stökkum og þær gerast jú í krafti fjöldans. Kannski er mannkyn nú að lifa jafn viðamiklar breytingar og þær kynslóðir sem fóru í gegnum tvær heimsstyrjaldir og gjörbreytingar á lífsháttum í kjölfarið. Guðrún frá Lundi tilheyrði þeirri kynslóð.

Kristín Sigurrós Einarsdóttir vinkona mín og samstarfskona um sýningu um langömmu, Guðrúnu frá Lundi, skoraði á mig sem áskorendapenna. Eitt er víst að kolefnisspor Guðrúnar truflaði engan enda nægjusöm mjög eins og aðrir af hennar kynslóð. Mig langar í lokin að gauka því að vinnuhópi um metnaðarfullt menningarhús, sem reisa á á Króknum, að það færi vel á því að minnast skáldkonunnar með einhverjum hætti í húsinu, en hún skrifaði allar sínar merku og sívinsælu bækur á Sauðárkróki. 

Ég skora á Dagnýju Marín Sigmarsdóttur frænku mína og nöfnu á Skagaströnd til að taka við áskorendapennanum en Dagný Marín er líka barnabarnabarn Guðrúnar frá Lundi.

Áður birst í 7. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir