Valin í lið ársins í 2. deild - Íþróttagarpurinn : Vigdís Edda Friðriksdóttir

Stelpurnar í meistaraflokki Tindastóls voru í miklum ham í 2.deildinni í fótbolta sumar, unnu ellefu leiki, gerðu eitt jafntefli og töpuðu tveimur. Endaði liðið með 34 stig, jafnmörg og Augnablik sem stóð uppi sem sigurvegari deildarinnar með betra markahlutfall. Vigdís Edda Friðriksdóttir stimplaði sig rækilega inn í liðið með góðum leik og mikilli hörku, skoraði tíu mörk í 14 leikjum og krækti í fjögur gul spjöld. Árangur hennar vakti athygli víðar en á Króknum því hún var valin í lið ársins hjá Fótbolta.net þar sem þjálfarar og fyrirliðar liðanna í deildinni völdu á listann. Vigdís Edda býr á Sauðárkróki er af árgangi 1999 og er íþróttagarpur Feykis að þessu sinni.

Hvar ólst þú upp? -Ég er alin upp á Sauðárkróki, en þegar ég var sex ára flutti ég til Noregs og bjó þar í tvö ár. Þar byrjaði ég að æfa fótbolta með Koll í Osló, sama liði og Katrín Jónsdóttir fyrrum landsliðsfyrirliði æfði með.

Hverra manna ertu? -Foreldrar mínir eru Ingibjörg Huld Þórðardóttir, talmeinafræðingur, og Friðrik Þór Ólafsson, smiður.

Íþróttagrein: -Fótbolti

Íþróttafélag/félög: -Tindastóll, Sauðárkróki og Koll, Osló.

Helstu íþróttaafrek: -Að koma liðinu aftur upp um deild, það gerðist í sumar og munum við spila í Inkasso deildinni á næsta ári. Fékk einnig þann heiður að vera valin í lið ársins í 2. deild af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

Skemmtilegasta augnablikið: -Það mun vera þegar við lentum 2-5 undir á móti Gróttu fyrr í sumar og kláruðum leikinn með sigri 6-5 og komum okkur í virkilega góða stöðu í deildinni.

Neyðarlegasta atvikið: -Held að það hafi verið á Reycup 2014 þar sem ég tók miðju, sendi boltann fram og missteig mig á fyrstu mínútu leiksins. Kom svo í ljós að ég var með rifið liðband í ökklanum og var meidd í einhverja mánuði.

Einhver sérviska eða hjátrú? -Nei, engin þannig en spila alltaf með vettlinga.

Uppáhalds íþróttamaður? -Auðvitað Frank Lampard.

Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Veit það ekki … keppa við Önnu Margréti í glímu, myndi pottþétt vinna...

Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Ég er með mikið keppnisskap, sniðglíma á lofti yrði mitt leynivopn og það myndi gera útaf við Önnu. Þótt hún vinni reyndar flest alla slagi.

Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Kláraði framhaldskólann í vor.

Lífsmottó: -Að hafa trú á sjálfum sér.

Helsta fyrirmynd í lífinu: -Ég lít mikið upp til ömmu minnar Eddu Lúðvíksdóttur sem var sjálf mikil íþróttakona. Hún hefur alltaf haft mikla trú á mér og þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendur. Hef eytt miklum tíma með henni í gegnum tíðina og lært mikið af henni.

Hvað er verið að gera þessa dagana? -Það er komið stutt frí í boltanum, þannig það er bara verið að taka því rólega. Ég kláraði framhaldskólann í vor, svo nú er ég að vinna.

Hvað er framundan? -Halda áfram að æfa vel og verða betri leikmaður, en sumarið er alveg óljóst og framtíðin öll.

Áður birst í 38.. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir