Varmahlíð – perla í héraði

Í aðdraganda kosninganna sem fram fara 26. maí nk. hafa framboðin haldið íbúafundi í Varmahlíð. Það hafa þeir gert áður, tekið samtalið við íbúa og haldið svo sína leið.

Sem íbúi í Varmahlíð hef ég tekið eftir miklum vilja til að bæta og laga ýmsa þætti er snúa að uppbyggingu, viðhaldi og umhverfismálum. Allir flokkar hafa lýst miklum vilja til aðgerða en efndir hafa verið mismiklar. Lítið hefur áunnist í umhverfismálum, gatnakerfið er sumsstaðar ónýtt, hreinsun og fegrun opinna svæða ábótavant, umhirða trjágróðurs nánast engin, að undanskilinni grisjun á vegum Skógræktar ríkisins.

Það er því mikið fagnaðarefni að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú á stefnuskrá sinni að eyrnamerkja tiltekna fjárhæð sem nota á til framkvæmda í Varmahlíð. Framkvæmda sem snúa að umhverfismálum og deilt verði niður á verkefni í samráði við íbúa þéttbýliskjarnans. Stefnt er að halda íbúafundi reglulega á hverju hausti í tengslum við fjárlagagerð og taka þar samtal um brýnustu verkefni.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur mikla áherslu á að sátt náist um húsnæðismál leikskólans í Varmahlíð og jafnframt verði farið í endurbætur á Varmahlíðarskóla á kjörtímabilinu. Opnunartími Sundlaugarinnar í Varmahlíð verði lengdur til að mæta þörfum íbúa og ferðafólks. Það er óþolandi fyrir notendur að koma endalaust að lokuðum dyrum sundlaugarinnar, hvort sem er að morgni, um helgar eða seinni part föstudags.

Hefja þarf vinnu við nýtt deiliskipulag og tryggja nægt framboð byggjanlegra lóða. Endurbyggja þarf ónýtar götur og fara í endurnýjun á lagnakefi þar sem þess er þörf. Kantsteina þarf að laga, leggja gangbrautir og göngustíga, slá og fegra opin svæði. Uppræta þarf njóla og kerfil og þá þarf aðgerðaráætlun að vera til staðar ef eldur brýst út í Reykjarhólsskógi.

Varmahlíð er í þjóðbraut og á að hafa alla möguleika á að þróast og stækka. Við höfum eitt besta tjaldsvæði landsins og afar góða og barnvæna sundlaug. Sögufrægir staðir eru í næsta nágrenni og útivistarsvæðið á Reykjarhóli laðar marga að. Varmahlíð er perla í héraði og þar er gott að búa.

Setjum x við D á kjördag.

Ari Jóhann Sigurðsson

Forstöðumaður á heimili fyrir fatlað fólk á Blönduósi og

skipar 6. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir