Verðandi sveitarstjórnarfólk

Nú er ljóst að allnokkrar mannabreytingar verða í komandi sveitarstjórn Skagafjarðar. Allir þeir sem þar gefa kost á sér eiga þakkir skyldar fyrir að ganga fram fyrir skjöldu og sýna þann áhuga og vilja sem þarf til að stjórna okkar ágæta samfélagi. Kröfur íbúa eru mismunandi eftir aldri og búsetu og rísa þar hæst samkvæmt venju atvinnu og skólamál. En miklu fleira skapar gott samfélag og þar eru fjölbreytileiki þess, félagsvitund og metnaður fyrir heimabyggðinni mikilvægir þættir.

Á vakt komandi sveitastjórnar hljóta  byggðirnar út með Skagafirði beggja vegna að verða umræðuefni hennar. Hvað er hægt að gera til að hægja á þessari hnignun hefur oftlega verið spurt? Tíminn er skammur. Vissulega veit ég að ekki eru til neinar skyndilausnir, en sveitarstjórnin á að beita sér fyrir þeim úrræðum sem mögulega geta hvatt fólk til búsetu á slíkum stöðum. Það hefur sýnt sig að tvær til þrjár ungar fjölskyldur sem flytja á réttu staðina geta snúið þróuninni algerlega við. Því er kominn tími á að skattaívilnanir verði að veruleika.  Slík inngrip létta undir þar sem vegalengdir eru miklar og fólk er jafnvel knúið til að sækja vinnu langar leiðir að heiman. Og  hvað með opinberu störfin?  Með tilkomu ljósleiðaravæðingar, eru þá nokkur vandkvæði á að hýsa einhver þeirra t.d. í Fljótum nú þegar leggja á skólann niður? Húsnæði og starfsfólk á svæðinu.

Talandi um opinber störf.  Hversu vel skila þau sér í raun inn í sveitarfélagið?  Gaman væri að fá tölur yfir þá opinberu starfsmenn sem vissulega vinna í Skagafirði a.m.k  að hluta, en búa annarsstaðar og greiða þar með gjöld sín til annarra sveitarfélaga og taka um leið væntanlega lítinn þátt í daglegu lífi þess. Erfitt er að skikka fólk til búsetu, en þar sem margir sækja um störf á þessum vettvangi á þetta að vera einn þeirra þátta sem taka á tillit til.

Svo er það vitundin. Nýleg könnun benti til mikillar lífshamingju okkar Skagfirðinga. Það er vel og við eigum líka að rækta hana,halda á lofti og minna gesti okkar á hvar þeir eru staddir. Ég veit ekki hversu oft ég hef nefnt við þar til bæra aðila að það vantar skilti á sýslumerki Húnavatns og Skagafjarðarsýslu út  á Skaga og gott ef ekki líka út í Fljótum. Það eru nefnilega fleiri leiðir inn og út úr sýslunni en Vatnsskarð og Öxnadalsheiði.

  Á ferðum mínum um landið rekst ég stundum á tilvitnanir í rithöfunda og skáld í gluggum bygginga, sýnilegar ferðafólki. Hvar eru tilvitnanir í Hannes Pétursson, Guðrúnu frá Lundi, Sigga Hansen í gluggum Skagafjarðar? Einfalt og ódýrt og þar getur Sveitarfélagið farið fyrir og skreytt sínar byggingar leiftrandi tilsvörum  og kveðskap.

Sjálfsagt er verið að vinna að fjölmörgum göfugum málefnum sem við meðaljónarnir vitum ekki af og eiga eftir að koma okkur til góða eins og ljósleiðara og hitaveituvæðingin eru sannarlega. Enn eru þó svæði sem seint eða aldrei munu fá hitaveitu frá samveitu, þeim verður einnig að sinna og bæta úr því sem brýnast er áður en það er um seinan.

Gangi ykkur vel sem til forystu veljist og munið að Skagafjörður er víðfeðmur framan úr dölum og út til annesja.

Gunnar Rögnvaldsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir