Viðreisn auðveldar þolendum heimilisofbeldis að fá skilnað

Mörg mál voru samþykkt á lokametrum þingvetrarins. Eitt þeirra var sérstaklega miðað að því að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis. Þingmenn Viðreisnar fengu samþykkt frumvarp sitt, sem auðveldar skilnaðarferlið fyrir fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi af hálfu maka síns eða býr á heimili þar sem barn hefur verið beitt ofbeldi.
Málið var fyrst lagt fram árið 2019 af Jóni Steindóri Valdimarssyni, þáverandi þingmanni flokksins, en þá náði það ekki fram að ganga. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, endurflutti málið í upphafi árs og var það samþykkt einróma í gærkvöldi. Í því ljósi var ánægjulegt að Jón Steindór sat inni á þingi sem varaþingmaður á síðustu dögum þingsins og gat því tekið þátt í að fylgja í höfn máli sem hann hafði átt upphafið að.
Fram til þessa hafa þolendur heimilisofbeldis aðeins getað krafist lögskilnaðar án undangengis skilnaðar að borði og sæng ef maki þeirra gengst við ofbeldinu og samþykkir skilnað á grundvelli þess. Gildir þar einu þótt hann hafi hlotið dóm fyrir ofbeldið sem hann hefur beitt maka sinn.
Þegar lögin taka gildi munu þolendur geta krafist lögskilnaðar ef maki gengst við broti sínu eða hefur hlotið dóm fyrir það, fyrir liggja upplýsingar frá lögreglu sem staðfesta útkall vegna heimilisofbeldis, önnur gögn á borð við áverkavottorð eða mat sálfræðings benda til þess að það hjóna er krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá þeim, hafi mátt þola ofbeldi af hálfu makans eða heildarmat á aðstæðum og upplýsingum gefur af öðrum ástæðum tilefni til þess að ætla að það hjóna er krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá þeim, hafi mátt þola ofbeldi af hálfu hins. Þegar skilnaðar er krafist á þessum grundvelli fyrir dómi munu þolendur jafnframt eiga rétt á sérstakri flýtimeðferð.
Er um að ræða miklar réttarbætur fyrir fólk í viðkvæmri stöðu. Hanna Katrín Friðriksson, flutningsmaður frumvarpsins, segir um það: „Langþráðar úrbætur á hjúskaparlögum eru loks í höfn eftir að Alþingi samþykkti frumvarp Viðreisnar sem auðveldar skilnaðarferli fyrir þolendur heimilisofbeldis. Við í Viðreisn erum stolt ef þessu máli og þakklát fyrir stuðninginn.“
Um aðdraganda málsins sagði Jón Steindór: „Kveikjan að þessari vegferð voru áhrifaríkir útvarpsþættir sem báru heitið Kverkatak þar sem rýnt var í heimilisofbeldi, eðli þess, áhrif og afleiðingar. Margir lögðu hönd á plóg við að ná þessum áfanga, bæði í undirbúningi upphaflegs frumvarps og síðar við þinglega meðferð og lagfæringar. Í mínum huga leikur enginn vafi á því að hér er á ferðinni mikil og góð réttarbót fyrir fólk sem býr við ofbeldi í hjónabandi og bæði verður og þráir að losna úr því helsi.“
Í frumvarpinu felst líka heimild fyrir hjón sem eru sammála um að ljúka hjúskap sínum að fá skilnað án undanfarandi skilnaðar að borði og sæng.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir