Vinátta

Í upphafi vil ég þakka þér Laufey fyrir að hugsa til mín og skora á mig að skrifa. Um leið skora ég á Helgu Sigurðardóttur á Grófargili að taka við og skrifa næsta pistil. Síðasta árið hefur verið óvenjulega lærdómsríkt hjá mér. Ekki kannski námið sem maður mundi velja sér (að vera maki krabbameinssjúklings) – en alveg sérstaklega innihaldsríkt og skilar mér (að eigin mati) betri manneskju. 

Ég hef að sjálfsögðu lært margt og mikið um krabbameinslyf og -meðferðir en mest hef ég lært um mannveruna og þessa merkilegu vináttu sem við getum átt. Þegar mér fannst ég hafa „náð botninum“ fékk ég mér ráðgjafa/sálfræðing og setti mér það markmið að koma betri út úr þessari reynslu en ég fór í hana. Betri manneskja. Mig langaði ekki bara að „lifa þetta af“. Það er nú alls ekki víst að allir séu sammála um hvað felst í því að verða betri manneskja svo eina leiðin er að meta það sjálf!

Að sjálfsögðu er ég endalaust þakklát fyrir hvað krabbameinsmeðferðin hjá mínum manni hefur skilað góðum árangri. Við getum verið bjartsýn og horft glöð til framtíðarinnar.

En ég er líka afar þakklát fyrir mikla og djúpa vináttu sem ég hef fundið fyrir á þessari vegferð. Oft hefur hún komið mér og okkur hjónum á óvart, mikill velvilji og hjálpsemi allt í kringum okkur. T.d. eitt kvöldið þegar ég kom akandi frá sjúkrahúsinu á Akureyri stóðu 11 jeppar kringum fjósið okkar. Þar hömuðust sveitungar okkar og voru að ljúka framkvæmdum sem við hjónin höfðum byrjað á. Það er reyndar erfitt (óréttlátt?) að fara að nefna dæmi því þau eru svo mörg. Einstaklingar sem standa eins og traust tröll í kringum okkur og hopa hvergi, hvort sem þau eru staðsett nær eða fjær. Svo höfum við eignast nýja vini. Fólk sem maður tengist í hvelli og líður eins og maður hafi alltaf þekkt. Fólk sem áður var ókunnugt en leiðir mann af ástúð í gegnum erfiðleikana.

Eins og maðurinn sagði breyta þrengingar eins og þung veikindi tengslanetinu í kringum mann. Svolítið eins og tímabundin tiltekt. Maður verður sjálfur ekki sérstaklega skemmtilegur og nú reynir á. Vinirnir lenda annaðhvort í innsta hring eða maður setur þá „á hold“. Það er ekki fallega gert en þegar ekkert er aflögu að gefa af sér gerist þetta af sjálfu sér.  Þeir sem lenda í innsta hring þurfa að standast ströngustu kröfur. Seinna jafnast þetta aftur – líka af sjálfu sér.  Það var gott að fá þann fyrirlestur hjá ókunnugum manni á kaffihúsi viku eftir greiningu því þetta rættist svo sannarlega.

Hvernig getur maður eignast svona góða vini?  Ég velti fyrir mér hvernig börnin okkar geti þróað með sér vináttu hvort sem er í sveit eða borg. Í borginni gat ég bara hlaupið yfir í næsta hús en hér þurfa þau að skipuleggja sig aðeins meira. Held það skipti ekki máli, sönn vinátta byggir ekki á praktík. Vinur er sá sem hefur að einhverju leyti svipaðan skilning á lífinu og lífsgildunum og maður sjálfur. Við eigum innihaldsrík samskipti, getum hlegið saman og sýnt hvert öðru skilning. Erum alls ekki alltaf sammála en okkur langar að vera samferða því við treystum hvert öðru, virðum, og þykir vænt um hvert annað. Í sönnum vini speglum við okkar innri mann og gerum okkur grein fyrir því hver við sjálf erum.  Þannig getum við orðið betri manneskjur.

Þeim tíma er vel varið sem fer í að rækta vináttu. Sannir vinir eru það sem skiptir mestu máli í lífinu. Því ættum við vanda okkur, gefa af okkur, fyrirgefa og vera fyrri til að láta gott af okkur leiða. Ég er óendanlega þakklát fyrir mína góðu vini.

Lokaorðin koma úr safni ömmu Sirrýjar – „It´s not the years  in your life that count, it´s the life in your years.“ (Abraham Lincoln).

Ég skora á Helgu Sigurðardóttur kennara í Varmahlíðarskóla að skrifa næsta pistil. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir