Ærin Bóthildur hjólaði til byggða

Gangnamönnum á Auðkúluafrétti brá heldur betur í brún þegar þeir gengu heiðina á dögunum. Voru þeir á niðurleið þegar þeir heyra skyndilega torkennileg hljóð. Vita þeir ekki fyrr en kind tekur fram úr þeim á mótorknúnu hjóli. Hjólaði hún svo hratt að þeir misstu sjónar af henni og fannst hún ekki fyrr en komið var í næturhólf. Þar sprangaði hún um á hjólinu og virtist vera hin ánægðasta.

Davíð Kárason bóndi, sem var einn gangnamannanna, þekkti þegar til kindarinnar. –Það fór ekkert á milli mála að þarna var hún Bóthildur á ferðinni, sagði Davíð í spjalli við Dreifarann, en hún er 10 vetra ær sem Davíð segir vera mjög uppátækjasama. – Einu sinni komum við að henni þar sem hún var að opna dyrnar að íbúðarhúsinu og í annað skipti laumaði hún sér á vagn hjá mér og fór með mér í bæinn, sagði Davíð.En tekur þessi hjólatúr ekki öllu fram? – Jú það má segja það kannski, hún hefur ekki gerst svona bíræfin áður, hvar hún hefur fengið hjólið hef ég ekki hugmynd um, sagði Davíð. – Hún hefur kannski bara tekið það ófrjálsri hendi af ferðamönnum sem hafa legið úti einhversstaðar, en ég hef nú ekki heyrt af neinum sem saknað hefur reiðhjóls á þessum slóðum.Ætlarðu að taka hjólið af henni? - Nei ég geri það nú ekki fyrr en við tökum ærnar inn síðar í haust, að vísu kostar þetta smá bensín á mótorinn, en á meðan hún hefur gaman af þessu, er þetta ekkert mál. Ég vil frekar hafa hana glaða og ánægða inni í húsunum í vetur, en hundfúla, sagði Davíð að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir