Áhættufíklar í meðferð í Lýtó

Í kjölfar yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, um að senda skuli áhættufíkla í íslensku viðskipta umhverfi í meðferð hefur ungur athafnamaður í Skagafirði haft hraðar hendur og hyggst nú stofna meðferðarstofnunina Björgum Íslandi ehf.

-Þessi orð ráðherra voru eins og töluð úr mínu hjarta og ég sá  í hendi mér að þarna gæti ég lagt mitt lóð á vogaskálarnar íslensku þjóðfélagi til bjargar, segir  Páll Gunnar Sveinsson athafnamaður í Lýtó. –Þessir svokölluðu áhættufíklar hafa of lengi haft frjálsar hendur með peningana okkar og tímabært að þeir læri að dýfa hendi í kalt vatn. Meðferðin mun fara þannig fram að fyrsta daginn fara þeir í svokallaða afstressun þar sem þeir fá engan síma, enga tölvu og engin blöð en þurfa reglulega að standa upp og stinga annarra, nú eða báðum höndum í kalt vatn. Næsta dag förum við inn á Sauðárkrók þar sem farið verður niður á sanda og athafnamennirnir verða látnir míga reglulega í saltan sjó. Síðan munu næstu vikur líða áfram með bænastund á morgnanna og hefðbundnum landbúnaðarstörfum. Að launum munu þeir fá að borða. Er það ætlun mín með þessu að kenna blessuðum mönnunum hvernig íslenska þjóðin hefur í gegnum aldirnar unnið fyrir sínu salti, segir Páll Gunnar.
Björgum Íslandi ehf. mun taka til starfa á næstu dögum enda segir Páll Gunnar að þörfin sé mikil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir