Framleiðir lyftistangir til útleigu og sölu

Áslákur Ólafíuson hefur hannað og framleitt lyftistöng sem hann hyggst leiga eða selja til sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga sem þurfa á slíkri lyftistöng að halda. Hugmyndina fékk Áslákur eftir fréttaflutning í RUV þar sem rætt var um aðgerðir ríkisstjórnarinnar á Vestfjörðum og að þær yrðu mikil lyftistöng fyrir svæðið.

-Já ég fór að velta þessu fyrir mér, hvað þessi lyftistöng væri eiginlega. Maður hefur svo sem heyrt það í gegn um tíðina að hitt og þetta sé lyftistöng, en ég hef aldrei séð þessa stöng og ákvað því að hanna og framleiða stangir sem fólk og heilu samfélögin gætu nýtt sér, sagði Áslákur við Dreifarann. –Ég leigi þetta á mjög sanngjörnum kjörum, þannig að það eiga allir að geta fengið sér svona lyftistöng.

Nú þegar hefur Áslákur samið við eitt sveitarfélag um kaup á nokkrum lyftistöngum. –Það var sveitarfélag sem hefur átt í basli vegna fólksfækkunar og atvinnu, sem verið hefur af skornum skammti. Þá hefur félagslíf íbúa farið niður á við í kreppunni og þeir ákváðu því að kaupa fjórar lyftistangir, sem þeir hyggjast nota til að rífa sig upp á þessum erfiðu tímum.

Það er því óhætt að segja að þessi framleiðsla Ásláks sé mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf svæðisins og vonandi fá sem flestir að njóta þess í framtíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir