Fyrsta skúffuverið á Íslandi opnað á Blönduósi

Frosti Gústafsson á Blönduósi, sem m.a. kom hársnyrtivélmenni á markað ásamt félaga sínum fyrir nokkrum misserum, lætur ekki deigan síga þegar kemur að uppfinningum og eflingu atvinnulífs og byggðar á Blönduósi. Nú hefur hann opnað fyrsta skúffuverið á Íslandi.

Frosti sagði í samtali við Dreifarann að hann hefði verið orðinn þreyttur á því að bíða eftir því að eitthvað gerðist í gagnaversmálum í Austur-Húnavatnssýslu og ákvað að taka málin í sínar hendur. –Ég fór að hugsa, þegar ég heyrði af því að Magma væri bara skúffufyrirtæki, hvað þessi skúffufyrirtæki væru eiginlega og hvaða þjónustu þau kölluðu á. Ég lagðist í markaðsrannsóknir og komst að því að það eina sem svona fyrirtæki þurfa er skúffa og pósthólf. Ég tók mig til og pússaði upp gamla kommóðu sem ég á úti í skúr, málaði hana og lakkaði og núna býð ég upp á þjónustu fyrir skúffufyrirtæki. Ég einfaldlega leigi út skúffurnar í kommóðunni, sagði Frosti við Dreifarann.

En hvernig gengur starfsemin? –Hún gengur vonum framar, ég er kominn með fjögur fyrirtæki í viðskipti og á bara eina skúffu eftir til að fullnýta aðstöðuna. Ég er í samningaviðræðum við aðila í Færeyjum sem hefur mikinn áhuga á að opna skúffufyrirtæki hjá mér og ég á von á því að samningar verði undirritaðir á næstu dögum.

Frosti mun í framhaldinu leita eftir fleiri fjölskúffukommóðum, eins og hann kallar þær, til að stækka við reksturinn hjá sér á næstunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir