Gefur skógarþresti steinsofandi

Húsmóður á Sauðárkróki brá heldur betur í brún þegar inn til hennar flaug skógarþröstur um helgina og tók sér bólfestu upp í rjáfri. Lofthæð er töluverð í húsinu og hefur ekki enn náðst að koma þrestinum út að sögn konunnar. –Ég var nú bara að vaska upp, var reyndar í dálitlu basli með það, þar sem burstinn sem ég notaði þá var orðinn ansi lélegur, en hvað um það....... þrösturinn hefur bara flögrað hér um eins og hann eigi heima hérna, sagði húsmóðirin sem ekki vill láta nafn síns getið. - Ég reyndi að berja hann niður með kústinum og svo á karlinn logsuðutæki sem við reyndum að nota til að svíða hann hreinlega á flugi. Hvorugt hefur gengið og hann er hér ennþá, búinn að skíta út um allt. Reyndar kom svolítið brunasár í loftbitana eftir logsuðutækið en ég vona nú að tryggingarnar bæti mér það tjón.

En hlýtur fuglinn ekki að drepast úr hungri? –Nei það virðist ekki vera, við ákváðum reyndar að reyna að svelta hann en húsbóndinn hefur þann leiða sið að ganga í svefni og hann hefur nú tekið upp á því að gefa þrestinum á næturnar. Það er þó skömminni skárra heldur en hann fari út úr húsinu eins og hefur komið fyrir, steinsofandi kall andskotinn, sagði konan.

Skógarþrösturinn hefur ekki verpt þarna innandyra, enda heldur frúin að þarna sé um karlfugl að ræða. – Alla vega núna eftir að HM byrjaði hefur hann algjörlega hætt að flögra um þegar kalinn er að horfa á HM, þannig að þetta hlýtur að vera karlfugl, sagði þessi óheppna húsmóðir að lokum við Dreifarann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir