Grunsemdir Sigurlaugar eru ekkert minna en hræðilegar

Silla Axels þegar allt lék í lyndi.
Silla Axels þegar allt lék í lyndi.

Sigurlaug Axelsdóttir, kirkjuvörður og rollubóndi, hringdi í Dreifarann á dögunum og sagðist vera orðin verulega áhyggjufull. „Já, ég held að hann Palli minn, maðurinn minn sko, sé alveg að missa það. Hann hefur nú alltaf verið upp eins og fjöður á morgnana þó hann hafi nú kannski ekki verið upp á sitt besta svona eftir jólin. En hann hefur nú yfirleitt náð sér á skrið í kringum þorrablótin, mætt með kúffullt trogið og verið kátur. Núna vildi hann ekki hafa neitt með sér nema súrar gúrkur frá ORA. Ég skil þetta bara ekki.“

Hvað heldurðu að ami að honum Palla, Sigurlaug? „Mig grunar nú ýmislegt. Ég hélt nú kannski að hann væri kominn með aðra en ég held að það sé alveg útilokað. Og þá, já, þá er eiginlega bara eitt ... sko ... en ég get eiginlega ekki hugsað þá hugsun til enda sko ...“

Hvað gæti það verið? „Mig grunar hreinlega að hann sé ... að hann sé orðinn VEGAN!“

Nei, andskotinn hafi það! „Já, ég veit, það væri bara hræðilegt. En ég sé ekki neitt annað sem getur verið að honum. Hann er leiður í skapinu, stanslaust að segja mér hvernig ég eigi að haga mér og svona. Mér sýnist þetta allt stefna í eina átt sko...“

Já! Þú segir mér fréttir. Hvað er til ráða Sigurlaug? „Ja, ég hef verið að hugsa. Ég hef tekið eftir því að hann er oft svona uppþembdur, þú skilur, maginn eins og þanin blaðra. Mig grunar helst að ég þurfi að höfða til umhverfissinnans í honum til að tjónka eitthvað við honum.“

Nú já, hvernig ætlarðu að láta það ganga upp? „Jú hérna, sjáðu til. Það er alltaf verið að tala um þessir vegan borði bara kál og sojabaunir eða hvað þetta nú heitir. Og hann Palli minn er svo agalega uppblásinn, hérna, og þú veist hvað sagt er um beljurnar, á hérna túnunum, þegar þær ropa og reka við?“

Nei, hvað er það Sigurlaug? „Nú að þær eyði ózonlaginu! Ég ætla að segja honum Palla að hann sé að eyða því. Fyrr eða síðar á þetta loft nefnilega eftir að fara úr honum og ég hef áhyggjur af þessu, að hann eyði því bara hérna yfir hverfinu okkar. Það væri auðvitað hræðilegt.“

Þú heldur þá að þessi veganismi sé hættulegur? „Já, það er alveg kristaltært. Hann er stórhættulegu öllu mannkyni. Heyrðu, hann er að koma, hérna hann Palli. Við heyrumst síðar ... kannski... vertu blessaður!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir