Halli hefur áhyggjur af vinum sínum í Rejseholdinu

Haraldur Gunnarsson á Víðigrundinni hafði samband við Feyki og hafði talsverðar áhyggjur af vinum sínum úr sjónvarpinu. Hann var í raun óðamála. -Ég bara verð að fá símanúmerið hjá henni þarna forsætisráðherra dana, Helle Thorning Schmidt. Þetta er spurning um líf og dauða, ef það er bara ekki orðið of seint nú þegar, sagði Halli pulsa.

Hvað er í gangi Halli? -Hvað er í gangi? Fylgistu ekkert með Rejseholdinu maður. Fisher og Johnny Olsen eru bara í stórhættu. Rokkaragengið er búið að klófesta þá.

Og hvað heldurðu að Helle Torning geti gert? -Hún verður bara umsvifalaust að reka ráðherrann þarna. Hann er bara að reyna að bjarga eigin skinni. Hann er sjálfur innvinklaður í morðið á þessari vændiskonu. Það verður að stöðva hann strax!

En eru þetta ekki bara sjónvarpsþættir Halli minn? -Ekki vera að bulla svona, hann er í ríkisstjórn Danmerkur þessi maður, þessi aumingi, það kemur fram í þáttunum. Hann kom upp um Fisher og fótboltamanninn þarna, Olsen. Hann var lengi í danska landsliðinu hann Olsen.

Jesper Olsen? -Neineinei, Johnny Olsen!

En Halli, ég get fullvissað þig um að það er bara allt uppspuni í þessum þáttum. -Nei, það er það ekki. Það stendur alltaf í lok þáttanna hvað þessi ógeð, þessir morðingjar og nauðgarar, fá langan dóm. Það stendur bara eins og stafur í bók í lok þáttanna. Og Fisher er til, ég er búinn að finna hann í dönsku símaskránni en hann bara svarar ekki. Sem er ekki skrítið því hann er lokaður inni í einhverri skemmu greyið maðurinn... já og Johnny með honum. Ég hef svo miklar áhyggjur af þessu, hvað verður eiginlega um Gaby og barnið ef Johnny verður drepinn?

Já það er nú það Halli. En ég er því miður ekki með símanúmerið hjá forsætisráðherra Dana. -Það kemur nú ekki á óvart, þið þessir aumingjar á fjölmiðlunum getið aldrei gert neitt rétt. Og nú er bara einn þáttur eftir og ég ætla ekki að láta drepa þessa vini mína án þess að reyna að bjarga þeim. Ég ætla að reyna að ná í einhvern. Það hlýtur einhver að geta hjálpað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir