Hefur verið að reyna að ná í lækni

Þorbjörg Anna Leifsdóttir er nafn sem kannski einhverjir kannast við sem hafa hlustað á Útvarp Sögu en þar hefur hún verið dugleg við að koma skoðunum sínum á framfæri og meðal annars kvartað undan læknaskorti á landsbyggðinni. Hún hefur líka verið dugleg í kvennablakinu en hefur lítið getað æft síðan í fyrravor þegar hún snéri sig illa á fæti. Dreifarinn hafði samband við Þorbjörgu Önnu.

Hvað var það sem gerðist Þorbjörg? -Æi, þetta var nú bara óheppni. Ég var bara á æfingu þarna rétt fyrir Krækjumótið og við fórum tvær í sama boltann og ég steig á fótinn á Hjördísi og bara snéri mig svona illa.

Og fórstu á sjúkrahúsið? -Nei ég gerði það nú ekki, en hefði betur gert það þarna strax því ég er ekkert að ná mér góðri. Ef ég reyni eitthvað á fótinn þá fer ég alltaf yfir á ökklanum. Þetta er alveg hræðilega frústrerandi.

Þú ert náttúrulega búin að missa af nokkrum mótum? -Já, þetta er alveg ömurlegt. Ég er búin að missa af öllu fjörinu með stelpunum.

Og ertu lengi búin að reyna að ná í lækni? -Hver segir það?

Jaa, er það ekki rétt? -Jújú, það er svosem ekkert leyndarmál. Í nokkur ár.

Nokkur ár!? Hefurðu ekki náð í neinn allan þennan tíma síðan þú meiddist? -Nei, ekkert svona alvarlegt, bara eitt og eitt skot. Þessi læknaskortur á landsbyggðinni er ansi erfiður fyrir konur eins og mig. En ég náði hins vegar í dýralækni í sumar.

Náðirðu í dýralækni? Og hvað getur hann gert fyrir þig? -Hvað getur hann gert fyrir mig?! Nú hann ge... bíddu bíddu, hverskonar viðtal á þetta eiginlega að vera?

Hverskonar viðtal? Ég var að spyrja hvort þú hefðir ekki náð í lækni eftir að þú meiddist svona í blakinu. Af hverju fékkstu samband við dýralækni en ekki venjulegan lækni? -Jaaáá... Hahaha, ...ég hef misskilið þig svona elskan mín. Ég hélt kannski að stelpurnar í blakinu hefðu sagt þér frá því að mig hefur lengi dreymt um að ná mér í lækni, svona kláran myndarlegan mann með góðar tekjur, eins og þarna í Læknavaktinni. Ég hélt þú værir að meina það... ná í þannig sko... en jújú, ég er alveg búin að fara til læknis, leið reyndar svolítill tími þarna frá slysinu. Ég var nú enn alveg draghölt en hann sagði mér bara að fá mér ökklahlíf, teygjusokk og skrifaði svo upp á Parkódín forte.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir