Hélt að þrettándinn væri 13. jan!

Kvartað var yfir flugeldaskothríð í íbúðahverfi á Sauðárkróki seint í gærkvöldi. Þegar grennslast var fyrir um málið reyndist um heljarinnar misskilning að ræða, því húsráðandi taldi að þréttándinn væri 13. janúar.

Maðurinn, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði í samtali við Dreifarann að hann hefði keypt sérstaklega mikið af flugeldum þessi áramótin til að eiga góðan afgang á þrettándanum. Hann kvaðst hafa farið út rétt fyrir miðnættið og skotið upp nokkrum flugeldum og þegar hann var um það bil að leggja eld að kveik tertu mikillar, kom lögreglan á staðinn og stöðvaði athæfið. –Ég vissi ekki hvað var að gerast þegar löggan kom á staðinn og sagði mér að hætta þessu. Þeir sögðu mér að þetta væri óleyfilegt. Ég maldaði í móinn og spurði þá að því hvort að þeir vissu ekki hvaða dagur væri en þá kom þessi misskilningur í ljós, sagði maðurinn við Dreifarann.

 –Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að þréttándinn væri þann 13. janúar, finnst alveg fáránlegt að hafa hann á öðrum degi þegar maður fer að spá í þetta, sagði maðurinn að lokum við Dreifarann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir