Kornið sem fyllti mælinn

Guðfríður Smith hringdi í Dreifarann í gærmorgun og sagðist vera búinn að gefast upp á þessari ósvífni sem viðgengst í þjóðfélaginu. -Það er alltaf verið að ssviiiinnnddlla á okkur almúganum. Ef það er ekki eitt, nú þá er það annað.

Segðu frá Guðfríður, hvað amar að? -Ja, manni er sagt eitt en svo tala staðreyndirnar sínu máli. Þetta með kornbrauðin hjá bakaranum, þetta er bara lygi. Ég hef í einfeldni minni keypt 3ja korna brauð árum saman en svo fór ég að skoða þetta um daginn þegar ég hnaut um korn þegar ég var að tyggja heimatilbúna lúxussamloku. Þá hætti ég bara að tyggja og fór að skoða brauðið.

Já, hvað segirðu. Og hvað? -Nú ég ákvað að telja kornin og þau voru sannarlega fleiri en þrjú. Ég sá ekki betur en þau skiptu tugum í einni og sömu brauðsneiðinni. Þetta var kornið sem fyllti mælinn hjá mér. Ég varð svo reið að ég hjólaði beint í bakarann og las yfir hausamótunum á honum.

Hvað sagði hann? -Hann var með einhvern þvætting um að ég ætti ekki að telja kornin heldur korntegundirnar. Ha, ha. Hann hélt ég væri einhver hálfviti sem hann gæti bara spilað með.

Hver var niðurstaðan í tali ykkar? -Hann sagði mér að skila 3ja korna brauðinu en í staðinn fengi ég fjölkornabrauð.

Og er þá ekki allt fallið í ljúfa löð? -Ég veit það ekki. Ég hef óljósan grun um að það vanti korn í fjölkornabrauðið.

Nei, heldurðu það nokkuð? Júú. Ætli ég skipti ekki bara næst yfir í spelt eða gamla fransbrauðið, það eru engin korn í því... En ég vil bara ekki að það sé verið að ssviiiinnnddlla á mér. Ég skil alla vegana af hverju það er talað um að hengja bakara fyrir smið, það þarf enginn að útskýra þann málshátt fyrir mér!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir