Óli Ólsen segir farir sínar ekki sléttar

Í Dreifaranum fyrir nokkrum vikum var spjallað við Jóhannes Ólsen sem vildi fá nafni Hegraness breytt í Jóhannes. Talsverðar umræður hafa spunnist vegna þessa og sýnist sitt hverjum. Óli Ólsen hafði samband við Dreifarann og hafði sínar hugmyndir.

Hvert er þitt innlegg í umræðuna Óli? –Ég vil bara fyrst fá að vita af hverju ar ekki talað við mig á undan Jóhannesi?

Við vissum nú bara ekki af áhuga þínum á örnefnum. –Jæja, allt í lagi. En já, ég vil láta breyta örnefni líka.

Og hvaða örnefni vilt þú fá breytt Óli? –Ég vil láta breyta nafninu á Hólum í Hjaltadal en það yrði bara smávægileg breyting.

Hvernig þá? –Hvernig þá! Nú bara eyða út h-inu. Þá yrði talað um Óla í Hjaltadal. Þú gætir þá komið í heimsókn til Óla, tjaldað á Ólum eða stundað nám í reiðmennsku á Ólum... ja, eða það er nú kannski ekki gott dæmi. Kannski betra að stunda nám í ferðamálafræði í Ólaskóla á Ólum og geta sagt: Ég útskrifaðist frá Ólum í vor. Ég er Ólanemi! Á Ólum ól ég manninn...

Nei, nú ertu að grínast? –Nei ha? Jú, auðvitað er ég að grínast, það sjá allir vitibornir menn. Ég vildi bara sýna fram á vitleysuna í honum Jóhannesi bróðir mínum, þessum rugludalli og eiginhagsmunasegg sem er búið að dreyma um það í mörg ár að láta breyta nafninu á Hegranesi í Jóhannes. Það á ekki að hleypa svona mönnum í fjölmiðla. Æ, maður velur sér víst ekki ættingjana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir